139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það sem brennur hvað mest á Íslendingum í dag eru atvinnumálin og óviðunandi ástand í þeim geira. Það var því fagnaðarefni eftir mikla þrautseigju íbúa á Reykjanesi að ríkisstjórnin skyldi loksins hafa ljáð máls á því að eiga gott samstarf um atvinnuuppbyggingu á því svæði þar sem mikið atvinnuleysi er. Ég fagna því hér.

Hins vegar eru fleiri landsvæði og íbúar sem hafa barist fyrir tilverugrundvelli byggðarlaga sinna, og vil ég nefna Þingeyinga í því samhengi. Það er útbreidd skoðun í Þingeyjarsýslum og reyndar hjá okkur fleirum að ríkisstjórnin hafi einfaldlega lagt stein í götu mikilvægra framfaramála er snerta atvinnuuppbygginguna þar. Sú spurning hlýtur þá að vakna — og ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur beðið um orðið á eftir — í framhaldinu hvort ríkisstjórnin sé ekki reiðubúin til að ganga til samstarfs og samvinnu við Þingeyinga í atvinnuuppbyggingu og atvinnusköpun á því landsvæði.

Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra er mikill áhugamaður um atvinnuuppbyggingu almennt en það er sárt fyrir fólk sem hefur horft upp á fækkun starfa, fækkun fólks svo áratugum skiptir — jafnvel ein versta þróun á landinu — að ríkisstjórnin skuli ekki gefa atvinnumálum á því svæði meiri gaum en raun ber vitni. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra segi hér frá þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hefur til að stuðla að fjölgun starfa í Þingeyjarsýslum með uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík sem mikið hefur verið unnið að. Við erum ekki bara að tala hér um atvinnumál er snerta Þingeyinga eina og sér, heldur Eyjafjarðarsýslu líka. Hér er um mikilvægt mál að ræða og það væri gott fyrir okkur sem viljum berjast fyrir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) kæmi hér upp og kæmi með svipaða yfirlýsingu um samstarf, eins vel og gert var við Reyknesinga í gær.