139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að koma aðeins ábendingu á framfæri varðandi dagskrá þingsins. Nú hefur verið rætt hér um ástæður uppsagnar starfsmanns hjá Ríkisútvarpinu og af því tilefni vil ég benda hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og hæstv. utanríkisráðherra á að á eftir er til umræðu tillaga til þingsályktunar um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Ég held að það væri mjög tilvalið, sérstaklega fyrir hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, að hlusta á þá umræðu. Það er einmitt talað um að í þessari samþykkt, ef hún verður samþykkt, sé atvinnurekanda gert skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef eftir því er óskað og síðan líka að starfsmanni skuli ekki sagt upp nema til þess sé gild ástæða.