139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel að forseti hafi stjórnað fundi alveg prýðilega og ég held að undir málslið eins og hérna áðan sé fullkomlega réttlætanlegt að hv. þingmenn viðri hvaðeina sem þeim dettur í hug, hvort heldur þeir varpa fram spurningum um fjölmiðla til annarra þingmanna eða eftir atvikum til ráðherra.

Ég kem hér aðallega til að taka undir það sem hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson sagði áðan, að sjálfsögðu á þetta að vera vettvangur til slíkra umræðna. Ég ætla samt líka að rifja upp það sem ég hef margoft sagt, ég er þeirrar skoðunar að hv. þingmenn eigi að hafa sem frjálsastan aðgang að því að spyrja ráðherra um hvaðeina. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að þing hvers dags eigi að hefjast með því að allir þeir ráðherrar sem tiltækir eru í landinu eða eru ekki að sinna öðrum störfum séu til andsvara um hvaðeina. Mér finnst t.d. fullkomlega eðlilegt að þeirri spurningu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson varpaði fram í salinn áðan sé varpað til einstakra ráðherra. Mér finnst eðlilegt að afstaða ráðherra, sem annarra þingmanna, til svona komi fram í þingsölum.