139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð er kunnugt um hefur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu og við, sama hvar við erum í afstöðu okkar til inngöngu Íslands í Evrópusambandið, hljótum öll að vera sammála um að hér þurfi að fara fram skýr, málefnaleg, uppbyggileg, upplýst umræða um þetta málefni og stöðu viðræðnanna. Þess vegna taldi ég rétt að biðja um þessa utandagskrárumræðu til að skýra ýmis atriði.

Upphaflega vildi ég ræða hér við hæstv. utanríkisráðherra um aðlögunarviðræðurnar sem ég tel vera í gangi en niðurstaðan varð sú að tala einfaldlega um viðræðurnar. Málið er einfaldlega það að ekki liggur ljóst fyrir í hvaða ferli við erum. Umræðan snýst annars vegar um það að við séum í aðlögunarviðræðum og að hér sé verið að aðlaga íslenskt stjórnkerfi að regluverki ESB og hins vegar er fullyrt af hálfu m.a. hæstv. utanríkisráðherra að það sé ekki verið að aðlaga nokkurn skapaðan hlut. Þessari spurningu þarf að svara þannig að umræðan hér sé upplýst.

Á heimasíðu Evrópusambandsins er að finna mikið af upplýsingum og ég tel við lestur þeirra alveg ljóst að ferlið sem Ísland er í snúist fyrst og fremst um aðlögun, þ.e. hversu hratt Ísland geti aðlagast kröfum sambandsins á sviði stjórnsýslu og lagasetningar. Og það er fjöldi heimilda fyrir þessu á heimasíðu Evrópusambandsins og jafnframt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins er að finna þýðingu á yfirlýsingu leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 27. júlí sl. þegar það var ákveðið að hefja formlega viðræður við Ísland. Þar segir, með leyfi forseta:

„Farið verður fram á það við Ísland að það tilgreini afstöðu sína með tilliti til regluverksins og geri grein fyrir því hve vel miði áfram við að uppfylla viðmiðanirnar. Rétt innleiðing Íslands á regluverkinu og framkvæmd þess, þar með talin árangursrík og skilvirk beiting af hálfu viðeigandi stofnana á sviði stjórnsýslu og dómsmála mun ákvarða hversu hratt samningaviðræðurnar ganga fyrir sig.“

Það er ekki hægt að skilja þetta á annan hátt en að hér þurfi að breyta íslensku regluverki til þess að samningaviðræðurnar gangi hratt fyrir sig. Nú er það ekki svo að allar breytingar á íslensku regluverki þurfi að vera slæmar. Hins vegar verður að liggja ljóst fyrir á hvaða vegferð Ísland er. Eins og ég sagði áðan liggur það ekki ljóst fyrir miðað við orð hæstv. utanríkisráðherra.

Það hefur komið fram í máli ráðherrans að aðlögun sé ekki í gangi. Í morgunútvarpi Rásar 2 þann 25. október sl. sagði hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Það er engin aðlögun í gangi og það er ekki verið að setja upp lög fyrir neinar nýjar stofnanir. Við munum ekki fara í neina aðlögun sem felur í sér nýjar stofnanir eða breyta lögum fyrr en það liggur ljóst fyrir að þjóðin hafi kveðið upp sinn úrskurð og sagt já. Þá munum við ráðast í aðlögunina.“

Þetta kemur nú ekki alveg heim og saman við það ferli sem maður dregur ályktanir um að sé í gangi miðað við lestur heimasíðna Evrópusambandsins og utanríkisráðuneytisins. Þetta þarf að skýra þannig að allir séu hér á sömu blaðsíðu.

Er staðan sú að við séum í aðlögunarviðræðum og í því ferli að aðlaga íslenskt regluverk að kröfum Evrópusambandsins eða ekki? Má skilja orðræðu hæstv. utanríkisráðherra svo að við séum á einhvers konar undanþágu frá þessum meginreglum Evrópusambandsins og því ferli sem önnur ríki hafa farið í gegnum þegar þau sækja um aðild? Það sem er ólíkt við umsókn Íslands og annarra ríkja að Evrópusambandinu er akkúrat það að hugur fylgir ekki máli á bak við þessa umsókn. Það er heili vandinn, sama hvort við erum fylgjandi aðild eða á móti aðild. Þá er það einfaldlega vandi sem við verðum að horfast í augu við, það er ekki rétt haldið á málum. Menn fara þarna af stað með hálfgert bjölluat vegna þess að annar ríkisstjórnarflokkurinn er á móti því að Ísland gangi þarna inn. Það er vandi sem allir þurfa að viðurkenna. Og það þarf að vera uppi á borðum hvað hér er í gangi, forsendurnar eru rangar.

Ég tel ljóst að þessu máli hafi verið siglt í strand, sérstaklega ef menn greinir á um það hvað þeir eru að gera. Er verið að aðlaga eða er ekki verið að aðlaga?

Í skýrslu frá Evrópusambandinu kemur m.a. fram að Íslendingar þurfi að banna hvalveiðar, að það þurfi að setja á laggirnar nýja stofnun til að miðla greiðslum innan landbúnaðarins og að gera þurfi að miklar breytingar á hömlum á rétti útlendinga til að fjárfesta í útgerð. Þetta eru nokkur dæmi um það sem Ísland þarf að breyta til þess að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um inngöngu. Ég tel rétt að við byrjum þessa umræðu á að heyra í hæstv. utanríkisráðherra og kalla fram svör við því hvar (Forseti hringir.) þessar viðræður í raun og veru standa.