139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og fyrir að hefja máls á þessu til að gefa mér tækifæri til að skýra betur einstök atriði sem vefjast fyrir fólki og sömuleiðis hver staða viðræðnanna er, eins og umræðan á að fjalla um. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sem hv. þingmaður las upp áðan af heimasíðum utanríkisráðuneytisins og Evrópusambandsins sé ekki í nokkurri mótsögn við það sem ég hef sagt. Svona er staðan. Það er engin aðlögun í gangi, ekki umfram þá aðlögun sem hér fer fram í viku hverri með því að við erum hér að samþykkja lög og þingmál sem tengjast aðildinni í gegnum EES og auðvitað með innleiðingu sem ráðuneytin standa fyrir og ekki þarf að koma fyrir þingið. Þetta er algjörlega kristaltært.

Staða viðræðnanna er býsna góð. Ég hef í öllum efnum reynt að fara eftir því sem ég hef kallað leiðsögn utanríkismálanefndar. Það er sama hvað það er. Ég hef reynt að hafa eins mikið samráð við alla um alla skapaða hluti. Það var breið samstaða um aðalsamningamanninn eins og utanríkismálanefnd lagði mér fyrir. Það var breið samstaða um alla þá sem taka sæti í aðalsamninganefndinni. Ég gætti þess að hafa samráð við öll hagsmunasamtök þegar verið var að skipa þá 200 fulltrúa sem koma að vinnunni í 10 samningahópum. Þess var gætt að hafa fulltrúa háskólasamfélagsins eins og mér var lagt á herðar, fjórir háskólar eiga þar fulltrúa. Þess var gætt að sjónarmiðum landsbyggðarinnar væri kirfilega komið á framfæri. Sömuleiðis var mér lagt ríkt á herðar að hafa jafnræði með kynjunum. Eftir öllu þessu hef ég farið. Ég hef reynt að hafa ferlið eins gagnsætt og opið og mögulegt er. Svör okkar við spurningum framkvæmdastjórnarinnar fóru á vefinn. Fundargerðir samningahópanna eru á vefnum, greinargerðirnar munu koma á vefinn og að lokum samningsafstaðan þegar hún er tilbúin, þó með þeim fyrirvara að samninganefndin telji að það skemmi ekki hagsmuni Íslendinga.

Nákvæmlega núna erum við í þeirri stöðu að í næstu viku hefst næsta skref með hinni svokölluðu rýnivinnu. Hún felst í tvöfaldri fundalotu þar sem löggjöf Evrópusambandsins er borin saman við löggjöf Íslands í hverjum einasta kafla. Í seinni lotunni flaggar Ísland sérstaklega þeim málum sem það vill semja um. Þessari rýnivinnu lýkur í júní á næsta ári. Sjálfir samningarnir munu hins vegar hefjast aðeins fyrr um þá kafla sem er búið að rýna þannig að rýnivinnan og sjálfir samningarnir skarast aðeins í tíma.

Öll ræða hv. þingmanns fjallaði um aðlögun. Ég hef þegar greint frá því að við erum í hverri viku að aðlaga íslenskan rétt að Evrópusambandinu í gegnum EES.

Viðræðurnar sjálfar fela hins vegar ekki í sér neina aðlögun. Ferlið er einfaldlega svona — og nú bið ég hv. þingmann að hlusta: Í rýnivinnunni eru þau atriði greind sem þarf að samræma í löggjöf beggja samningsaðila. Aðallega munu þau væntanlega varða þau atriði sem standa utan EES-samningsins, þ.e. fyrst og fremst land og sjó, eins og hv. þingmaður gerði að umræðuefni áðan. Það er um þau atriði sem verður samið, t.d. með hvaða hætti við munum skoða og laga okkur, að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, að ákvæðum um greiðslumiðlunarstofnun, og þær fimm aðrar stofnanir sem ESB segir að við þurfum landbúnaðarins vegna að setja hérna upp. Þessir samningar verða að sjálfsögðu á okkar forsendum og á grundvelli okkar sérstöðu. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp orð stækkunarstjórans, Stefans Füles, í íslenskum fjölmiðlum í gær þar sem hann sagði að ESB mundi, með leyfi forseta, „taka tillit til sérstöðu Íslands og væntinga“. Útfærslan á niðurstöðunni um þessi atriði sem við þurfum að semja um mun svo felast annars vegar í undirbúningi innleiðingar, eins og aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að koma þessum breytingum í kring, þarfagreiningu og hverju öðru sem að gagni má koma. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslunni sleppir og ef þjóðin geldur jáyrði mun hin endanlega eiginlega aðlögun fara fram. Þetta er meginreglan og ef hagsmunir okkar kalla á einhverjar breytingar fyrr verður það ekki gert nema í samráði við þingið.

Svona liggur þetta fyrir, frú forseti, þannig að það er algjörlega óhætt að segja að það ferli sem ég hef lýst — ég er búinn að gera þetta í heilt ár — er það sem við erum að fara eftir. Heldur hv. þingmaður að hinir háu herrar úti í Brussel viti ekki hvað utanríkisráðherra hefur verið að segja? Ég hef sagt þetta við þá á opnum fundum, lokuðum fundum, ég hef sagt þetta í fjölmiðlum og ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að hvert einasta orð sem ég og hún munum láta falla í dag verður þýtt og komið á borð þeirra (Forseti hringir.) strax í næstu viku.