139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Lokaorð hæstv. utanríkisráðherra vöktu mig dálítið til umhugsunar. Maður verður að passa sig. Það er ekki bara bandaríska sendiráðið sem fylgist vel með gangi mála á Íslandi.

Þessi umræða öll er dálítið ruglingsleg. Ég held að allir hljóti að geta tekið undir það, t.d. þessar vangaveltur um hvort menn eigi að aðlagast fyrir eða eftir þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Allt leiðir þetta af því hvernig til málsins var stofnað. Er ekki hægt að taka undir það? Það var ekki farið af stað í þessa vegferð eins og best yrði á kosið. Fyrir vikið hefur þetta verið ákaflega ruglingslegt. Til að mynda erum við með ríkisstjórn sem er algjörlega klofin í málinu svo menn vita ekki hvort það er stefna ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild eða ganga inn í Evrópusambandið eða ekki. Í plöggum frá Evrópusambandinu kemur fram að ríkisstjórn Íslands standi þétt að baki aðildarferlinu og svo kemur hæstv. fjármálaráðherra í pontu og segir að það sé alls ekki stefna ríkisstjórnarinnar að ganga í Evrópusambandið, alls ekki stefna ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu heldur, (Gripið fram í: Jú.) alls ekki stefna ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég bendi hv. þingmönnum á að fletta þessu upp og fylgjast með því sem samstarfsráðherrar þeirra segja í þinginu. (Gripið fram í.) Þetta er nefnilega grundvallaratriði. Jafnframt er málið líklega dálítið ruglingslegt vegna þess að það liggur ekki heldur fyrir á hvaða forsendum ríkisstjórnin er — eða ekki — að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Er það vegna þess að það sé efnahagslega nauðsynlegt — þannig hefur stundum verið talað og líklega allt of oft — fyrir Ísland eða er það vegna þess að menn hafa þá hugsjón að það sé rétt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið og verða þátttakandi í því sem Evrópusambandið gengur út á? Allt er þetta mjög ruglingslegt en það er vegna þess hvernig til málsins var stofnað. (Gripið fram í.)