139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara utanríkisráðherra sem heldur sína hefðbundnu ræðu hér heldur halda aðrir þingmenn sínar hefðbundnu aðlögunarorðhengilsháttsræður líka. Það er … (SKK: Samninga…) En samningaviðræður Evrópusambandsins eru, eins og lög gera ráð fyrir, á hendi utanríkisráðherra, hann hefur gert mjög vel grein fyrir því hvernig þær standa núna.

Embættismenn gera hins vegar starfshópi utanríkismálanefndar einnig grein fyrir framvindu viðræðna. Við héldum slíkan fund í gær. Það var ekki á mætingu stjórnarandstæðinga að sjá á þeim fundi að þeir hefðu mikinn áhuga á því hvernig samningaviðræðurnar gengju. En eftir því sem fram kom á fundinum gengur allt samkvæmt áætlun í þeim efnum.

Mér finnst samt skrýtið að við Íslendingar viljum ekki reyna að stefna og vinna að því að á þeim tíma sem samningarnir standa yfir að við náum sem bestum samningi, hvort heldur við hyggjumst svo fella hann eða samþykkja þegar hann liggur fyrir. Ég held reyndar að það sé svo með marga að þeir ætli að bíða eftir samningnum. Það ætla ég að gera þó að ég sé einlægur stuðningsmaður þessa nema upp komi eitthvað mjög skrýtið út úr þessum samningi, sem ég á ekki von á. Ég treysti mér til að segja það núna að þetta er sú stefna sem ég aðhyllist mjög í okkar efnum.

Mér finnst t.d. mjög einkennilegt að bændasamtökin sem taka meira en hálfan milljarð af ríkisútgjöldum í dag, vilji ekki senda sérfræðinga með samningamönnum til Brussel til að sitja þar með starfsmönnum framkvæmdastjórnarinnar og fara í gegnum þau mál er snerta landbúnaðinn. Ég segi, virðulegi forseti: Það er (Forseti hringir.) háttalag sem ég skil ekki.