139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[15:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, hún er þörf og gagnleg. Það er þó einn galli á henni, hann er sá að það er allt of skammur tími sem við höfum til að ræða þetta stóra mál.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt á tveimur mínútum að koma því á framfæri sem maður vill gera í þessu efni.

Hér hefur heilmikil umræða farið fram, bæði á þingi og í samfélaginu, um hvort í gangi sé viðræðuferli sem kalla megi aðlögun eða einfaldlega samningaviðræður. Sagt er að ekki liggi ljóst fyrir í hvað viðræðum við erum raunverulega.

Í mínum huga skiptir mestu máli hvaða skilning menn leggja í þessi hugtök en ekki hugtökin sjálf. Mér finnst afar þýðingarmikið að við beinum umræðunni að efni málsins sjálfs: Um hvað snýst aðild að Evrópusambandinu? Hverjir eru hugsanlegir kostir? Hverjir eru hugsanlegir gallar? og reyna að draga það fram í umræðunni frekar en að hengja sig í orðaleppa um það hvort eitthvert ferli heitir þetta eða hitt. Það skilar okkur að sjálfsögðu engu.

Í mínum huga hefur það verið algerlega skýrt en ég geri mér grein fyrir að komið hafa misvísandi skilaboð, m.a. frá Evrópusambandinu sjálfu hvað það snertir. Í mínum huga er það skýrt að það eru ekki kröfur af hálfu Evrópusambandsins um að við innleiðum í lög regluverk Evrópusambandsins eða breytum um stofnanastrúktúr áður en þjóðin tekur ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vill þar inn eða ekki. Um það eru skiptar skoðanir. Mér finnst mikilvægt að fá það algerlega á hreint í frekari viðræðum við Evrópusambandið. Um það hafa verið uppi ólík sjónarmið.

Ég vil leggja áherslu á lýðræðislega nálgun í þessu máli. Það þekkja allir afstöðu flokks míns hvað aðild að Evrópusambandinu snertir (SKK: Nei.) en ég legg áherslu á lýðræðislega nálgun. Ég tel að utanríkisráðherra eigi að koma með reglulegu millibili í þingsal og gefa munnlega skýrslu um stöðu viðræðnanna þar sem gefst tækifæri til ítarlegra skoðanaskipta og umræðna um þau mál. (Forseti hringir.) Ég legg líka mikla áherslu á að efla upplýsingastarf á vegum Alþingis sem er (Forseti hringir.) hluti af stefnumörkun utanríkismálanefndar í nefndaráliti hennar, til þess að gefa fólki kost á að fá upplýsingar (Forseti hringir.) um hvað felst í þessu stóra máli.