139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[15:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vinsældir mínar meðal þingmanna eru slíkar að þess var sérstaklega farið á leit við mig að ég mundi taka þátt í þessari umræðu og að sjálfsögðu verð ég við því þar sem ég hafði tök á að ræða þetta mikilvæga mál. Ég get ekki skilið annað en að hv. þingmenn hafi viljað ræða þetta í breiðu samhengi, ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að við höldum því sem við köllum sveigjanlegan vinnumarkað. Ef við gerum það ekki við þessar aðstæður sem eru núna, er alveg ljóst að við munum eiga erfitt með að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í í dag.

Af því hér var vísað í umræðu frá því í dag sem ég var upphafsmaður að þar sem ég vísaði í uppsagnir fréttamanns RÚV. Því miður eru allar fréttir frá uppsögninni — við erum að tala um eitthvað sem ég held að misbjóði réttlætiskennd flestra ef ekki allra. Okkur veitir ekkert að því að fara yfir þessi mál í stóru samhengi, bæði hvað varðar opinbera starfsmenn, ég tala nú ekki um hjá ríkisfjölmiðlum sem ber höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla landsins sem er í sérstakri stöðu og hefur mikið sjálfstæði. Þegar ég sá fréttina af uppsögninni leiddi ég hugann að þeim fjölmörgu starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem eru ekki bara að skrásetja sögur heldur taka með beinum hætti þátt í stjórnmálum. Þeir tengjast þar af leiðandi stjórnmálamönnum og stjórnmálaöflum vegna þess að þeir eru skráðir í þau. Það verður að viðurkennast að manni fannst ekki vera mikið samræmi í því að taka þennan mann út. Yfirmenn vissu að hann var að skrásetja sögu fyrrverandi ráðherra, en þegar í ljós kom hvaða ráðherra var um að ræða var viðkomandi aðila sagt upp störfum.

Ég sá viðtal við formann Félags fréttamanna sem sagði að eftir að Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag væri staðan þannig, eins og skilja mátti af orðum formannsins, að það væri lítið hægt að gera ef mál eins og þessi kæmu upp. Formaður félagsins sagði að honum fyndist ömurlegt að sjá á eftir fréttamanninum.

Ef það er svo að það þurfi litlar sem engar ástæður til þess að segja upp starfsmönnum eða það er lítið samræmi, eins og lítur út fyrir í þessu tilfelli hjá opinberum hlutafélögum, held ég að það væri skynsamlegt að setjast yfir það. Alveg á sama hátt tel ég skynsamlegt að setjast yfir starfsmannamál hjá ríkinu. Ég tel mikilvægt að bæði stjórnendur og millistjórnendur dvelji ekki of lengi á hverjum stað. Ég held að það sé allt of mikið um að aðilar séu árum eða jafnvel áratugum saman í sama starfinu. Ég held að það sé gott fyrir starfsmann, ég tala nú ekki um fyrir viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og annað slíkt, að viðkomandi einstaklingar fái fleiri tækifæri þá séu meiri líkur á því að viðkomandi sé ánægður í starfi og kulni ekki. Slíkt hefur slæm áhrif á allt kerfið og er miklu alvarlegra held ég en menn átta sig á.

Á sama hátt held ég að áminningakerfið sé úr sér gengið ef það var einhvern tímann réttlætanlegt. Það er skynsamlegt að setjast yfir þá hluti.

Hv. þingmaður Lilja Mósesdóttir nefndi líka Orkuveitu Reykjavíkur sem er opinbert fyrirtæki. Það vakti athygli hvernig þar var gengið fram varðandi uppsagnir. Þar hefur tekist einstaklega illa til. Ég veit ekki hvort löggjafinn geti gert eitthvað í því til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Ég vil vekja athygli á því að fyrirtæki á Íslandi — það er ekkert svo mikið í umræðunni. Ég held að það séu 94%, virðulegi forseti, af fyrirtækjum á Íslandi sem eru lítil fyrirtæki, fyrirtæki með minna en 50 starfsmenn. Ef ég man rétt eru í kringum 90% sem eru með minni en 10. Það er í það minnsta gríðarlega hátt hlutfall. Hvað þýðir það? Það þýðir að íslenskt efnahagslíf samanstendur að langstærstum hluta af örfyrirtækjum.

Hvað þýðir það þegar fyrirtæki er með færri en 10, 20, 30 starfsmenn? Það þýðir það að oftar en ekki er framkvæmdastjórinn líka eigandi, einn aðaleigandi. Yfirstjórnin er alla jafna mjög fámenn. Það er lítill, svo maður sletti, með leyfi virðulegur forseti, infrastrúktúr í svona fyrirtækjum. Öll skriffinnska eða flókið lagaumhverfi kemur einstaklega illa niður á fyrirtækjum sem þessum. Þau bera afskapleg illa slíkar reglur og slíkt reglugerðarfargan sem oft fylgir atvinnustarfsemi í stærri löndum.

Ég held að það væri skynsamlegt að við skoðuðum sérstaklega hvers vegna, af því ég held að enginn deili um það, ekki í verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendur eða aðrir, vinnumarkaður okkar er sveigjanlegri en annars staðar. Af hverju gengur okkur betur hvað þetta varðar? Ég held að enginn deili um það. Það er nokkuð sem við getum sagt að sé betra hér en annars staðar.

Ég hef hvorki skoðað það né lesið rannsóknir eða skýrslur. Ég veit ekki hvort það sé til en ég hef hins vegar rætt við marga aðila sem reka fyrirtæki í öðrum löndum. Hér er t.d. vísað í Svíþjóð sem er búið að innleiða þetta. Ég veit ekki hvort það sé þess vegna eða út af einhverri annarri ástæðu en ég veit að litlir atvinnurekendur í Svíþjóð draga það í lengstu lög að fastráða starfsmenn. Þeir aðilar sem ég þekki og hafa rekið þar lítil og meðalstór fyrirtæki, draga það í lengstu lög að fastráða starfsmenn vegna þess að þeir telja að starfsmenn séu þá komnir með það sterka stöðu, ef þeir eru fastráðnir, að ekki sé nokkur leið að segja viðkomandi upp, jafnvel þó hann standi sig ekki í starfi. (Gripið fram í: … tvö ár.) Nú heyrði ég ekki hvað hv. þingmaður kallaði. (Gripið fram í: Getur bara gert það í tvö ár.) Já, hv. þingmaður kallar að viðkomandi þurfi bara að gera það í tvö ár. Þá ertu líka kominn með aðrar leiðir, verktaka og ýmislegt annað, semja við aðila í dótturfyrirtækjum og öðrum slíkum þáttum. Mér finnst þessi tvö ár ekkert stuttur tími. Ég mundi ætla að það væri betra. Mér sýnist almenna reglan á Íslandi vera að viðkomandi aðilar eru fastráðnir eftir tiltölulega skamman tíma. Ég held að það sé góð regla. Það þýðir að launamaðurinn fær meiri réttindi ef til uppsagnar kemur.

Ég efast ekkert um að það sé einlægur vilji hv. þingmanna og allra, bæði flutningsmanna og annarra, að við viljum að hagur launamanna sé sem bestur. Við viljum að launamenn hafi sem best laun og sem best kjör, líka tryggt starfsöryggi. Við þurfum að líta til annarra landa og sjá hvaða mistök þau hafa gert og hvaða mistök við höfum gert. Við verðum að taka mið af því að hér erum við að langstærstum hluta með lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ég hef unnið víða á íslenskum vinnumarkaði og alltaf hefur maður unnið, sérstaklega þegar maður var yngri, hjá mjög litlum fyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Ég tel gott að við ræðum þetta mál. Ég held að það sé mikilvægt að fara yfir þetta út frá forsendunum sem ég nefndi. Ég hef áhyggjur af sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði. Ein af ástæðunum fyrir því að ég hef svona miklar efasemdir um inngöngu í Evrópusambandið er að ég veit að því fylgir ósveigjanlegri vinnumarkaður. Það er ein af ástæðunum fyrir því að atvinnuleysi er svona mikið í mörgum löndum Evrópusambandsins, sérstaklega meðal yngra fólks. Og atvinnuleysi, virðulegi forseti, er eitthvað sem við megum ekki sjá að verði eins mikið hér á Íslandi og það er núna. Við þurfum að minnka það. Við megum ekki sjá framtíðina á Íslandi með þeim hætti að hér sé mikið atvinnuleysi. Því miður er ein af ástæðum atvinnuleysis ósveigjanlegur vinnumarkaður. Þess vegna tel ég mikilvægt að við vörumst það sem mest við getum.