139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[16:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir þessi svör. Mig langar engu að síður að spyrja hana hvort sá hv. þingmaður og aðrir flutningsmenn hafi engar hugmyndir um með hvaða hætti þeir vilji sjá þetta málsmeðferðarkerfi eða hvort þeir ætli eingöngu félagsmálanefnd, hv. þingmaður sagði nú ríkisstjórninni, að ákveða með hvaða hætti málsmeðferðin eigi að vera, eða hverjir það eigi að vera. Vart getur það verið framkvæmdarvaldið sem á að ákveða hvaða málsmeðferðarkerfi eigi að vera eða hvaða hlutlausi aðili það eigi að vera sem tekur að sér eða sinnir þessu verkefni.

Aftur langar mig að spyrja og þá um skoðun hv. þingmanns, hvort hún telji að hér eigi að ríkja tvenn lög, vegna þess að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru lög frá Alþingi. Það er ekki stéttarfélaganna að ákveða lögin, það er Alþingi sem hefur sett þau lög.

Ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort hún sé þá að segja að áfram eigi að gilda sérlög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og önnur sérlög um launþega á hinum frjálsa atvinnumarkaði.