139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðmundur Steingrímsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Frumvarpið er einfalt. Það er tvær greinar. 1. gr. gengur út á að fella í burtu 2. tölulið 1. mgr. 5. gr. laganna. Í 2. gr. segir að ef Alþingi ákveður að samþykkja frumvarpið munu lögin taka strax gildi.

Með þessu er verið að breyta tiltölulega nýsamþykktum lögum sem munu koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010.

Í frumvarpinu eru lagðar til skattaívilnanir fyrir fyrirtæki sem stunda nýsköpun. Skilgreina þarf þessi nýsköpunarfyrirtæki í samræmi við skilning laganna. Þegar frumvarpið um lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki kom fram var lagt til að fyrirtækin mundu fá skattfrádrátt ef þau gætu sýnt fram á með gögnum að varið væri a.m.k. 20 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili. Eftir meðferð Alþingis var lagt til að sú upphæð yrði lækkuð úr 20 milljónum í 5 millj. kr. enda höfðu komið fram ýmis rök um að svo há upphæð kynni að vera íþyngjandi og stæði af þeim sökum í vegi fyrir að smærri þekkingarfyrirtæki nytu góðs af ákvæðum frumvarpsins. Það var síðan samþykkt 17. desember 2009 og var frumvarpið að lögum svo breytt.

Í greinargerð með frumvarpinu var mjög mikið horft til hins svokallaða SkatteFUNN-kerfis Norðmanna sem hefur skilað mjög góðum árangri frá því að það var sett á stofn árið 2002 og er mikil ánægja með það kerfi. Ég fór að skoða málið betur og leita að því hvort í þeim lögum væri að finna einhverja lágmarksupphæð sem fyrirtæki þyrftu að leggja í nýsköpun og þróun. Ástæðan fyrir því að ég fór að skoða lagaumhverfið í Noregi var ábending sem ég fékk frá sérfræðingi á þessu sviði sem starfað hefur mjög mikið með nýsköpunarfyrirtækjum og innan vaxtasamnings í Norðaustkjördæmi. Í samtölum mínum við hana kom fram að hún taldi að þessi lög mundu engan veginn koma til móts við þarfir lítilla nýsköpunarfyrirtækja eða fyrirtækja sem væru að hefja rekstur. Í norsku lögunum er ekki neins staðar að finna lágmarksupphæð heldur er höfuðáherslan lögð á að verkefnið sé í eðli sínu nýsköpunarverkefni og að skattfrádrátturinn fari ekki umfram áætlanir. Einungis er sett hámarksupphæð en ekkert lágmark sem fyrirtækin þurfa að eyða til að uppfylla skilyrðin.

Þegar við samþykktum þetta horfðum við til þess að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknar- og þróunarstarf í þeim tilgangi að búa til ný og spennandi störf á Íslandi sem veitir ekki af að efla, og auka hagvöxt. Það skiptir miklu máli í núverandi ástandi.

Ég tel mjög nauðsynlegt að horfa til þessa vegna þess að þegar fyrirtæki hefja rekstur, sérstaklega nýsköpunarfyrirtæki, felst mjög mikill kostnaður í því að hefja reksturinn, vinna rannsóknar- og þróunarstarfið. Þau þurfa einmitt á skattaívilnun eða stuðningi að halda á fyrstu æviárunum. Ef miðað er við upphaflegu upphæðina, 20 milljónir, virtist vera horft til þess að fyrirtækin þyrftu að vera komin ágætlega af stað áður en þau gætu uppfyllt skilyrði um stuðning.

Í framhaldi af þessu vil ég nefna að í Noregi fór af stað verkefni árið 2002 þar sem aðeins var horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Árið 2003 var síðan ákveðið að það ætti að eiga við öll fyrirtæki óháð stærð. Árangurinn var strax umtalsverður. Árið 2002 voru samþykkt 2.600 verkefni, árið 2003 voru það 4.500 verkefni. Samkvæmt síðustu tölum sem ég hef og eru frá árinu 2005 taldi norska ríkisstjórnin sig hafa ívilnað fyrirtækjum um 1,8 milljarða nkr. árið 2004, sem er umtalsverð upphæð.

Það er mjög áhugavert, í tengslum við að við þurfum svo sannarlega á því að halda að styrkja útflutningsgreinarnar og styrkja innflæði gjaldeyris, að rannsóknir sýna að fyrirtæki sem nýta sér þetta mest eru fyrirtæki eiga að verða útflutningsfyrirtæki. Samkvæmt talsmönnum þeirra hafa þau hafi farið í rannsóknir og þróun á verkefnum sem þau hefðu hugsanlega ekki gert ef skattívilnunarkerfið hefði ekki verið til staðar.

Til að setja það í samhengi skipaði fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, áður en hún yfirgaf ráðuneyti sitt, erlendan sérfræðihóp til að fara í gegnum mennta-, atvinnu- og nýsköpunarstefnu okkar til framtíðar. Hópurinn átti að skoða hvernig við gætum unnið okkur út úr kreppunni og byggt samfélag okkar upp á nýtt. Eins vildi ráðherra kanna hvað ráðuneyti hennar gæti gert.

Í nefndinni voru Christoffer Taxell, kanslari Åbo Akademi háskólans í Finnlandi, Richard Yelland, forstöðumaður menntaáætlunar og innviðadeildar alþjóðaskrifstofu menntunar OECD í Frakklandi, Iain Gillespie, forstöðumaður vísinda- og tæknistefnudeildar aðalskrifstofu vísinda- og tæknimála hjá OECD, Markku Linna, fyrrverandi ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytis Finnlands, og ritari nefndarinnar Arnold Verbeek, sérstakur sérfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu IDEA Consult í Brussel í Belgíu. Þessir merku einstaklingar lögðu mikla áherslu á að ríkisstjórn Íslands beitti sér fyrir nýsköpun á Íslandi. Þeir sögðu að góð vísindi væru ekki verðmætaskapandi sjálfkrafa. Þeir sögðu jafnframt, með leyfi forseta:

„Góð rammaskilyrði og beinn stuðningur við fyrirtæki er nauðsynlegur til að góðar hugmyndir leiði til bættrar samkeppnisstöðu og ávinnings fyrir íslenskt samfélag, bæði efnahagslegs sem og annars konar ávinnings.“

Þeir fóru í gegnum nokkra punkta þar sem þeir ræddu hvað þeir teldu þurfa að gera. Þeir bentu á að mjög mikilvæg væri fyrir hagkerfi landsins, þar sem við værum svo fá, að við fókuseruðum á hvar við gætum orðið framúrskarandi, og að á Íslandi lofuðu þrjú fræðasvið sérstaklega góðu, þ.e. jarðhitavísindi, lífvísindi og skapandi greinar eða upplýsingatækni.

Þeir töluðu líka um að mikilvægt væri að ríkisstjórnin skilgreindi þau fyrirtæki á Íslandi sem væru líkleg til að styðja við hugmyndafræði nýsköpunar. Koma þyrfti á ákveðnu traustu starfsumhverfi. Ríkisstjórnin þyrfti að sýna og sanna mjög fljótt að hún skildi þarfir fyrirtækja og að hún brygðist við þeim þar sem það væri mögulegt.

Þarna er tekið undir það sem stjórnarandstaðan og Samtök atvinnulífsins hafa verið að benda á, að ákveðinn stöðugleiki eða traust starfsumhverfi og skilaboð til fyrirtækjanna skipti mjög miklu máli til að tryggja nýsköpunarumhverfi.

Það þarf líka að bæta úr hæfni háskóla, opinberra rannsóknarstofnana, til að koma rannsóknum sem fyrst út í atvinnulífið. Síðan komu nefndarmenn inn á það sem varðar þetta frumvarp, og raunar frumvarpið sjálft sem var samþykkt þótt ég telji það ekki ganga nógu langt, að mjög miklu máli skipti að tryggja óbeinan stuðning við rannsókn og þróun innan fyrirtækja og viðskiptaþróun í viðbót við beinan stuðning sem þegar væri til staðar. Þar þyrftum við sérstaklega að horfa til skattaívilnana til að hvetja til rannsókna og þróunar sem og afkasta íslenskra fyrirtækja.

Nefndarmenn töluðu síðan um hvernig þær ívilnanir ættu að vera útfærðar og að tryggja þyrfti að þær hefðu hámarksáhrif. Sérstaklega væri mikilvægt að veita ekki bara fyrirtækjunum sjálfum skattaívilnanir heldur líka viðskiptaenglum, þeim sem fjárfesta í fyrirtækjunum og halda utan um þau þegar þau eru sem viðkvæmust, einnig litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir rannsóknar- og þróunarkostnað. Lykiláherslan er á lítil og meðalstór fyrirtæki en ekki þegar þau eru komin nokkuð vel áleiðis.

Síðan bentu nefndarmenn á, og það er mikilvægt að við skoðum það líka í þinginu, að þeir fjárfestingarsjóðir sem nú eru til staðar á Íslandi leiddu að þeirra mati til þess að fyrirtæki læstust inni í sjóðunum, sem gerði það að verkum að sjóðirnir hefðu minni möguleika til þess að taka ný fyrirtæki inn í sjóðina. Endurskoða þyrfti það sjóðaumhverfi sem við erum í til að tryggja að við getum tekið fyrirtæki inn eða komið þeim út.

Allar reglur sem við vinnum með þurfa að styðja við nýsköpun. Það þarf að vera fyrirsjáanlegt þótt virkar reglur séu í sumum tilfellum nauðsynlegar.

Síðan verður sú stefna sem við veljum fyrir nýsköpun framtíðarinnar að byggja á því sem gengið hefur vel, hvort sem það er hjá hinu opinbera eða einkaaðilum, vegna þess að nefndarmenn lögðu áherslu á að við þyrftum að gera eitthvað sem skilaði árangri strax fyrir samfélagið, að ná samstöðu um skammtímabreytingar og hrinda þeim hratt í framkvæmd.

Raunar sögðu þeir okkur stjórnmálamönnum að við yrðum að ganga á undan með góðu fordæmi.

Þetta eru tillögur sem ég hef margítrekað í ræðum mínum og störfum, bæði innan viðskiptanefndar og menntamálanefndar. Ég hef aftur og aftur bent á að við verðum að samþætta menntastefnu við atvinnustefnuna okkar til framtíðar og líka á það hvernig við getum komið upplýsingum til fyrirtækjanna, hvernig við getum stutt betur við þau fyrirtæki sem leggja í þann mikla kostnað sem felst í því skapa nýja þekkingu, búa til nýja vöru og koma þeim síðan á markað.

Þegar ég skoðaði betur hvernig Norðmenn höfðu gert þetta og þá lærdóma sem þeir höfðu fram að færa fannst mér mjög sláandi að við skyldum ákveða að setja lágmarksupphæð sem viðkomandi þarf að fjárfesta í, þegar þeir gerðu það ekki. Þar með náum við að mínu mati ekki þeim markmiðum sem sett voru fram með lagafrumvarpinu á sínum tíma um að stuðla að verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Við horfum frekar til þess að styðja við starfandi fyrirtæki en ekki að búa til ný atvinnutækifæri í nýjum fyrirtækjum.

Ég vísa málinu til efnahags- og skattanefndar og vonast til þess að málið fái góða umfjöllun þar að lokinni þessari umræðu, að við getum sýnt að þingmenn ná saman hvað nýsköpun varðar vegna þess að það eru hagsmunir okkar allra að við styðjum vel við nýsköpun og verðmætasköpun í samfélaginu til þess að vinna okkur út úr kreppunni.