139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef reynt undanfarna daga, vikur og mánuði að vera jákvæður og fara ekki í þessi gömlu hjólför, í hanaslaginn. Ég verð reyndar að svara því til, af því að Sjálfstæðisflokkurinn ber víst ábyrgð á öllu sem gerst hefur í 18 ár og hruninu meira að segja líka, og segja hv. þingmanni að hæstv. utanríkisráðherra hefur viðurkennt í þessum stól að hafa átt aðild að ríkisstjórn síðustu tvö árin fyrir hrun. (MÁ: Nú, játaði hann það?) Hann játaði það, já. Mér er meira að segja kunnugt um að sá flokkur hafi haft þau ráðuneyti sem mest höfðu með hrunið að gera, þ.e. viðskiptaráðuneytið og … (Gripið fram í: Og?) Ég man það ekki alveg í bili, en allt í lagi.

Það sem ég vildi segja við hv. þingmann er að hann hefði nefnilega verið kominn að þeirri niðurstöðu og búinn að uppgötva í ræðu sinni að fjármagnseigendur væru heimilin. Það eru ekki útrásarvíkingar sem eiga innlán, þeir eiga skuldir. Það vill nefnilega svo til að þessi vondi fjármagnseigandi er heimilin. Í gegnum lífeyrissjóðina á hvert heimili að meðaltali 15 milljónir — 15 milljónir á hvert heimili að meðaltali í lífeyrissjóðunum. Þar eiga heimilin fjármagn. Þau eru sem sagt fjármagnseigendur. Svo eru menn alltaf að tala illa um heimilin sem fjármagnseigendur.

Hv. þingmaður gæti lesið frumvarp um gagnsæ hlutafélög sem var dreift í dag. Í fylgiriti nr. 1 er lýst hvernig hægt er að búa til heila keðju af fyrirtækjum sem sýnast hafa eigin fé og hagnað en eru tóm. Ég skora á hv. þingmann að lesa þetta fylgirit af því að ég tel mig hafa fundið galla í hlutabréfaforminu, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.