139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og þeim þingmönnum sem tóku þátt í henni. Það eru nokkur atriði sem ég mundi vilja fá að bregðast við í lokin.

Það sem þessu frumvarpi er ætlað að gera er að í staðinn fyrir að setja á ákveðið lágmark yrði áherslan á Rannís eða þann sem ætti að votta nýsköpunarfyrirtækin eða verkefnin, áherslan yrði þar, þannig að við værum ekki að setja upp einhverja aðra hindrun sem fyrirtækin þyrftu að komast yfir heldur kæmi vottun frá Rannís um hvort þau uppfylltu skilyrði til að teljast nýsköpunarverkefni og fá skattaívilnun.

Það vill oft vera þannig, og það þekkja flestir sem hafa staðið í því að stofna fyrirtæki og hafa starfað sem frumkvöðlar, að það eina sem maður kannski hefur er maður sjálfur. Þá er maður að leggja eigin vinnu og hugvit í fyrirtækið og á oft erfitt með að sýna fram á þann kostnað þó að hann sé raunverulegur vegna þess að ekki eru til peningar til að borga mannauðnum eða mannvitinu laun. Það verður því ákveðin hindrun að þurfa að sýna fram á þessar lágmarks 5 milljónir sem fara í rannsókn og þróun í upphafi þegar fyrirtæki fara af stað.

Ég held að við hljótum að vilja hafa sem fæstar hindranir í stuðningi okkar við fyrirtækin, heldur hljótum við frekar að horfa til þess að þegar við höfum fengið þessa vottun geti fyrirtækin farið að fá endurgreiddan að hluta til þann kostnað sem þau eru þegar búin að leggja í sem getur þá verið alls konar tól og tæki og efni þó að það tengist ekki beint launakostnaðinum.

Síðan held ég að aðeins hafi verið komið inn á þau tvenn lög í þessari umræðu sem var verið að samþykkja hvað varðar stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Það voru annars vegar skattaívilnanir beint til fyrirtækjanna sjálfra og hins vegar skattafsláttur þeirra sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Það er alveg í samræmi við það sem ég fór í gegnum, tillögur alþjóðlegu sérfræðinganna um að styðja við viðskiptaengla — þá sem setja inn startpeninga til frumkvöðlanna. Þá getur þessi vottun sem nýsköpunarfyrirtækin, eða frumkvöðlarnir, geta fengið á þau rannsóknarverkefni sem fyrirtækin vinna að líka gert það að verkum að auðveldara sé fyrir þau að fá viðskiptaengla til að fjárfesta í fyrirtækinu. Þegar maður les um það kerfi sem Norðmenn hafa sett upp finnst manni eins og sú hugsun sé þar að baki.

Síðan er líka mjög áhugavert hvað varðar norska kerfið, sem ég taldi að efnahags- og skattanefnd ætti sérstaklega að skoða, mismunandi skattafsláttur eftir stærð og veltu fyrirtækja. Hærri skattafsláttur er til fyrirtækja með minni veltu og færra starfsfólk en stærri fyrirtækja með meiri veltu og fleira starfsfólk. Þetta er náttúrlega út af því að þegar fyrirtækin byrja rekstur þá þurfa þau sem mest á stuðningi að halda og þá þurfum við að halda vel utan um þau til að þau verði að þeim merkilegu og mikilsvirtu fyrirtækjum sem við höfum séð. Einhvern tíma var fyrirtækið Össur nánast bara einn maður. Einhvern tíma var Marel bara hugmynd í höfðinu á einum manni. Sama á væntanlega við um Eve Online, sú hugmynd kviknaði einhvern tímann hjá einhverjum. Við þurfum að styðja við bakið á þeim sem eru að byrja með hugmyndir, sem eru að koma fyrirtækjunum á fót, búa til stöðugt umhverfi og styðja fyrirtækin síðan áfram þegar þau eru orðin stærri en þá í minna mæli þar sem þau hafa þá sjálf frekar efni á því að standa undir nýsköpun sinni.

Enn á ný ítreka ég þakkir fyrir þessa umræðu og vonast til að málið verði tekið til góðrar efnislegrar meðferðar í efnahags- og skattanefnd. Ég hlakka til að sjá þær umsagnir sem koma varðandi þetta og líka ef frekari ábendingar verða um hvernig hægt sé að betrumbæta það góða frumkvæði frá ríkisstjórninni, sem við vorum mjög þakklát fyrir, að búa til þennan ramma en ég tel að við getum gert enn betur.