139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Norðaust., Birki Jóni Jónssyni, fyrir hans ræðu og undirtektir við frumvarpið. Af því má þó alla vega ráða að fyrir utan flutningsmenn er a.m.k. einn þingmaður í þingsalnum sem lýsir hér með yfir stuðningi við málið. Vonandi verða þeir fleiri þegar á hólminn er komið.

Það voru mjög athyglisverð atriði sem komu fram í máli hv. þingmanns sem mig langar aðeins að velta hér upp. Hann rakti t.d. hér hver þróunin hefði verið hvað varðar hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja, að það hefði tekið litlum sem engum breytingum á löngu árabili. Þetta er auðvitað staða sem við horfum á og hljótum að taka alvarlega. Það var mjög metnaðarfullt hjá Samtökum kvenna í atvinnulífi og konum í stjórnmálaflokkunum að hafa frumkvæði að svona sáttmála sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni og ég nefndi einnig í framsöguræðu minni, um það að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. En það hefur sem sagt sorglega lítið hreyfst í því á undanförnum árum. Þess vegna held ég að þrátt fyrir það að menn hafi sett sér svona tímasett markmið eins og gert var hafi verið óhjákvæmilegt að þrýsta enn frekar á það, festa það sem sagt í sessi með lagabreytingum en gefa þá þann aðlögunartíma sem gildandi lög gera ráð fyrir þannig að menn hefðu tíma til að tryggja að þessar breytingar gætu gengið fyrir sig á þann veg að menn hefðu svigrúm til að fjölga konum.

Þingmaðurinn gat líka um skólakerfið og ræddi um að það væri að sjálfsögðu ekkert minni menntun kvenna en karla eða þekking og annað slíkt, og auðvitað er það hárrétt. Ef eitthvað er væri það kannski á hinn veginn og við sjáum þá þróun í skólakerfinu í dag, eins og t.d. í framhaldsskóla, að þar er mun meira brottfall pilta en stúlkna. Við sjáum það í fjölmörgum greinum í háskólanum, kannski flestum, að konur og stúlkur eru orðnar þar í meiri hluta nemenda, fleiri en piltar, þannig að þetta er þróun sem er að eiga sér stað þar. Kannski verður því kynjakvótinn, þegar upp verður staðið og til lengri tíma litið, ákveðin vörn fyrir okkur karlana frekar en hitt (Gripið fram í: Orð í tíma töluð.) þannig að það megi líka horfa á þetta sem ákveðna forvörn svona fram í tímann litið. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að trygga það, við viljum byggja upp samfélag jafnréttis og réttlætis og það er að sjálfsögðu algjörlega óhjákvæmilegt að bæði kyn komi að stjórnun ekki bara landsins heldur að sjálfsögðu í atvinnulífinu líka, í verkalýðshreyfingunni. Ég hugsa að ef það væri skoðað, og það er sagt algjörlega án ábyrgðar, sé hlutur kvenna enn á heildina litið rýrari en hlutur karla í forustu í verkalýðshreyfingunni. Eins og ég segi, þetta segi ég án ábyrgðar, ég veit ekki hvort þetta hefur verið skoðað sérstaklega en alla vega er alveg ljóst að við þurfum að ná betra jafnvægi hér.

Náðst hefur heilmikill árangur í stjórnmálunum, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi, og sumir stjórnmálaflokkar hafa innleitt kynjakvótareglur hjá sér við val á framboðslista. Það er eins með þá reglu þar að hún kann að verða einhver vörn fyrir karlana þegar fram í sækir og þess vegna má kannski segja að karlar ættu að fagna þessu frekar en hitt. Mér finnst þetta mikilvæg umræða, mér finnst mikilvægt fyrir okkur að gera allt sem við getum til að stuðla að jafnrétti í stjórnum fyrirtækjanna og gerist það ekki með aðgerðum atvinnulífsins sjálfs, eins og vonir stóðu kannski til að yrði — og vissulega hefur atvinnulífið haft metnað til þess í orði kveðnu, en það hefur því miður ekki gerst í reynd með nægilega markvissum og öflugum hætti. Þess vegna er óhjákvæmilegt að setja ákvæði um þetta í lög og það gerði Alþingi hér á síðasta þingi í vor. Og ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þeirri vinnu, bæði á vettvangi viðskiptanefndar og hér í þingsal, að greiða fyrir því að slík ákvæði yrðu sett í lög.

Það er engin ástæða, það eru engin rök til þess að þetta fyrirkomulag sé með öðrum hætti í fyrirtækjum sem kjósa sér annað rekstrarform eins og í samvinnufélögum eða sameignarfélögum, að ekki sé talað um stóru sameignarfyrirtækin Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun sem reyndar eru að fullu í opinberri eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, það er engin ástæða til þess. Að sjálfsögðu á að gera þær kröfur á þessi fyrirtæki að þau uppfylli þessi almennu viðmið hlutafélagalaga. Til að tryggja að svo verði þarf að setja það inn í þessi lög sem hér er gerð tillaga um af því að um þau gilda sérlög.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson fjallaði ekkert sérstaklega um hinn efnisþátt þessa frumvarps, sem fjallar um starfandi stjórnarformenn, en ég kýs að skilja ræðu hans almennt á þann veg að hann styðji einnig þær breytingar sem þar eru lagðar til, sem mér finnast líka mikilvægar og í samræmi við það sem segja má að hafi verið sá andi sem sveif yfir vötnunum í kjölfar bankahrunsins, að það ætti að skilja mjög greinilega á milli annars vegar ábyrgðar á hinum daglega rekstri fyrirtækja og hins vegar stjórnuninni, vegna þess að það að sitja í stjórn fyrirtækja er annars konar starf í sjálfu sér, það er annars konar ábyrgð og það er eftirlitshlutverkið sem er líka ríkt með hinni daglegu stjórn.

Ég minnist þess að í umræðum í viðskiptanefnd um kynjakvótann var oft spurt: Er þetta raunhæft í öllum fyrirtækjum, einkahlutafélögum? Dæmin sem voru tekin voru gjarnan þessi: Er raunhæft að reikna með því að konur fari í stjórn hjólbarðaverkstæðisins hérna vestur á Nesvegi eða að það fari karlar í stjórn einhvers snyrtivörufyrirtækis einhvers staðar? Þetta er dálítið lýsandi fyrir þann hugsunarhátt sem er enn ríkjandi hjá okkur. Hvað er að því að konur séu í stjórn hjólbarðafyrirtækis eða karlar í stjórn snyrtivörufyrirtækis, hvað er að því? Ef fyrirtækin eru af þeirri stærðargráðu sem lögin taka til, þ.e. með 50 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli, er þetta bara almennt fyrirtæki og stjórnunarhlutverkið snýst bara um stefnumótun og almennan rekstur fyrirtækis, burt séð frá því hvers konar starfsemi það stundar, og þess vegna eiga rök af þessum toga að sjálfsögðu ekkert við, það er ekki þannig.

Þó að hitt sé síðan alveg rétt, sem m.a. hv. þm. Birkir Jón Jónsson gat um, að í ákveðnum starfsstéttum er mikið misræmi á milli hlutfalla kynjanna og það er auðvitað líka alveg sérstakt áhyggjuefni hver þróunin hefur orðið í þeim efnum. Og af því að hv. þingmaður fór að tala um börnin og uppeldishlutverkið, skólana o.s.frv., hlýtur það að vera öllu samfélaginu visst áhyggjuefni hver þróunin hefur orðið í því að karlar hafa í mjög miklum mæli horfið út úr þessum uppeldisstéttum, uppeldisgreinum, kennarastéttinni, sem var mikil karlastétt hér í eina tíð. Það hafa kannski aldrei verið margir karlar starfandi á leikskólum eða á dagheimilum en þó hefur orðið fjölgun þar á undanförnum árum sem betur fer. En það eru vissar greinar þar sem kynjahlutföllin eru mjög bjöguð og kannski óhjákvæmilegt á vissum sviðum að það verði þannig.

Það þýðir ekki að bæði kyn geti ekki komið að stefnumótun og stjórnun fyrirtækja og starfsemi á hinum ólíkustu sviðum. Mér þykir þess vegna mikilvægt að flytja þetta frumvarp, frú forseti, og vænti þess að það fái góðar undirtektir eins og það hefur þegar fengið hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni.