139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna með þessum tveimur þingsályktunartillögum. Þær eru líkar en samt ólíkar, ef svo má segja, en þær eru ræddar hér saman samkvæmt ósk og tillögu 1. flutningsmanns á báðum tillögunum.

Það sem mig langar aðeins til að velta upp er spurningin um hvort svona skilgreining eða sérgreining landshluta sem miðstöð eða vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar geti haft það í för með sér að við dreifum kröftunum meira en góðu hófi gegnir, þ.e. dreifum fjármagni sem við höfum til ráðstöfunar í rannsóknir, þróun og menntun óþarflega mikið, þannig að við höfum kannski úr of litlu að spila á hverjum stað. Þetta veit ég ekki, mig langar að heyra það frá flutningsmanni hvort þessi vinkill hefur eitthvað verið ræddur og skoðaður eða hvernig hún sér fyrir sér nákvæmlega nýtingu fjármuna til þessara verkefna. Sömuleiðis hvað þingmaðurinn sér fyrir sér um samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis við önnur ráðuneyti, af því að hér er verið að tala um vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum, það er verið að tala um atvinnuþróunartækifæri einstakra landshluta sem heyra náttúrlega í sjálfu sér undir fleiri en menntamálaráðherra, hvort það séu einhverjar mótaðar skoðanir á því hvaða önnur ráðuneyti, stofnanir, hagsmunaaðilar o.s.frv. ættu að koma að stefnumörkun af þessum toga.

Á þessu stigi eru þetta, frú forseti, einhverjar vangaveltur, lítið ígrundaðar, en mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessara álitamála.