139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina. Hann spyr hvort hætta sé á því að þessi sérgreining verði til þess að dreifa kröftum. Ég held þvert á móti, enda er það tilgangur tillagnanna að ná fram í raun og veru markvissari nýtingu fjármuna og markvissari nýtingu krafta með því að grípa til skilgreiningar sem byggir á sérstöðu hvers svæðis fyrir sig og þeim grunni sem þar hefur þegar verið lagður. Ég held einmitt að þvert á móti væri hætta á því, að óbreyttu, að fjármunir nýttust ekki eins vel og þessi hugmynd gengur út á.

Hún gengur út á það að menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir því að svæðin séu skilgreind en í framhaldinu verði þetta síðan gert í samhengi við heildarstefnumótun um málefni rannsókna og háskólastigsins. Ég vænti þess að stefnumótunin mundi þá skila sér inn í rannsóknarsjóðina, inn í opinbera sjóði og í samstarfi og samvirkni við atvinnulífið á svæðinu, háskólastarfið o.s.frv. Það svarar þá eiginlega síðari spurningu þingmannsins um samstarf við önnur ráðuneyti. Mér finnst einboðið að menntamálaráðuneytið hafi samstarf og samráð bæði við önnur ráðuneyti og eins við sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög á hverjum stað varðandi þetta.