139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því hann kom inn á niðurskurð, sem hann kallaði, hjá hafrannsóknasetri á Ísafirði — ég held að það sé rétt hjá mér — sem hefur annars vegar verið fjármögnuð af menntamálaráðuneytinu og hins vegar af iðnaðarráðuneytinu. Ef ég skil þetta rétt er það þannig að þegar þessi merka starfsemi var sett á stofn var hún á könnu menntamálaráðuneytisins en gerður fimm ára samningur við iðnaðarráðuneytið um að koma þarna inn með fjármögnun. Ef ég veit rétt, nú getur vel verið að ég viti það ekki, þá verð ég leiðrétt, þá held ég að þessi samningur hafi runnið út. Nú er það oft þannig að samningar renna út og ekki er alltaf hægt að ganga að því sem vísu að þeir séu endurnýjaðir. Þegar verið er að setja upp svona stofnun eins og þessa menntastofnun þarna á sínum tíma er ætlunin kannski sú að iðnaðarráðuneytið komið þar inn með pening í t.d. fimm ár, á þeim tíma nái stofnunin að koma sér einhvern veginn þannig fyrir að hún nái í aðra fjármögnun eða þar fram eftir götunum.

Ég vil kannski bara vekja athygli á því að það skiptir líka máli, ef svona samningar eru gerðir, að þeir sem reka þá stofnun átti sig á að þarna eru þeir með samning, sem er ekki sama og það að vera á föstum fjárlögum alveg endalaust, og þurfi þess vegna að huga að því. Þess vegna finnst mér svolítið ósanngjarnt að kalla þetta niðurskurð, þetta er samningur sem ekki er endurnýjaður.