139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því sem hv. þingmaður endaði á því ég þekki þá umræðu. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði að þegar landsbyggðarmenn þurfa að sækja þjónustu á annan stað á landsbyggðinni, þá kvarta þeir oft á tíðum mest sjálfir.

Ég vil nefna eitt sem hefur háð okkur landsbyggðarmönnum, það er hrepparígurinn. Oft á tíðum hefur aðalatriðið verið í gegnum árin að viðkomandi stofnun má alls ekki vera þarna heldur verður hún að vera akkúrat heima hjá mér. Ef ekki er það þó betra að hafa hana í Reykjavík. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir svo við séum sammála um eitthvað.

Ég er hins vegar algerlega ósammála því að ekki sé hægt að byggja upp höfuðstöðvar stórra stofnana á landsbyggðinni. Það finnst mér vera ótrúleg skammsýni. Hægt er að benda á mörg dæmi um það.

Hv. þingmaður nefndi Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem var og er mjög framsýnn maður, og sýslumannsembættin sérstaklega. Hann færði einmitt allar innheimtur sektargreiðslna til sýslumannsembættisins á Blönduósi. Það er ekkert því til fyrirstöðu að gera þetta með þeim hætti eða hafa það skipulag að þessar stofnanir séu á landsbyggðinni. Af hverju skyldi nú Björn Bjarnason hafa gert þetta? Vegna þess að þetta var líka ákveðin viðurkenning fyrir starfsmenn stofnunarinnar sem hafa staðið sig með mikilli prýði.

Þá velti ég upp til viðbótar, af því hv. þingmaður heldur því fram að hér sé nú nafli alheimsins, til að mynda þeim jákvæða fundi sem hæstv. ríkisstjórn átti með Suðurnesjamönnum um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Það er eitt dæmi til viðbótar sem mundi styrkja það svæði. Það er því (Forseti hringir.) ekkert samasemmerki á milli Reykjavíkur og … (MÁ: Sama svæði, sama svæði.)