139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér í myrkrinu dálítið merkileg mál sem komið hafa fram og miða að því að efla sérgreiningu landshluta sem vettvang rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar og veitir svo sannarlega ekki af því. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir fór yfir það í nokkru máli og reyndar ræðum við þessu samhliða aðra þingsályktunartillögu um Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða. Það er ekki langur tími sem við höfum til að ræða það mikilvæga mál, einungis 10 mínútur, þannig að ég ætla að reyna að vera hnitmiðaður hvað þau mál varðar. En ég minni á að hv. þm. Eygló Harðardóttir og ég sem 2. flutningsmaður, mæltum í dag fyrir frumvarpi til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Það er ánægjulegt að við hér á þingi skulum beita okkur fyrir því að efla fjölbreytni og nýsköpun, og þar með fjölgun starfa í íslensku atvinnulífi sem sjaldan hefur verið eins mikilvægt að koma í framkvæmd eins og í dag þegar við búum við sögulega mikið atvinnuleysi.

Ég ætla byrja á þingsályktunartillögunni um sérgreiningu landshluta sem vettvang rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar, og lýsi yfir stuðningi við þá hugmyndafræði sem þar kemur fram. Þar ályktar Alþingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að rannsóknar-, mennta- og atvinnuþróunartækifæri einstakra landshluta verði skilgreind í ljósi sérstöðu og sérhæfingar á hverjum stað.

Það er mikilvægt að koma því í verk, vegna þess að við höfum á undangengnum árum séð mörg stórmerkileg verkefni verða að veruleika vítt og breitt um landið á sviði rannsókna og atvinnuþróunar. Það er göfugt. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tillagan eigi að stuðla að markvissum stuðningi og stefnu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til fjárlaga. Hver er sú markvissa stefna sem fjárlögin fyrir árið 2011 fela í sér? Hún er því miður sú, eins og frumvarpið er lagt fram, framlög til margra þekkingarsetra, háskólasetra og allrar þeirrar uppbyggingar sem við höfum séð á undangengnum árum eru skert. Þessi þingsályktunartillaga, sem ég veit að er lögð fram í góðri trú, rímar ekki alveg við þá stefnuáætlun sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur lagt fram í fjárlagafrumvarpinu. Því þurfum við að taka höndum saman og breyta þeirri pólitík sem ríkisstjórnin rekur.

Ég man fyrir nokkrum árum þegar ég var að byrja á þingi, að ég ræddi við tvo unga Húsvíkinga. Annar heitir Lindi, hinn heitir Óli. Þetta voru ungir, menntaðir menn sem voru búnir að klára háskólanám sitt og stofna fjölskyldur í Reykjavík. Þeir höfðu þann draum að flytja þekkingu sína heim í hérað, að flytjast aftur heim til sín og sinna störfum sínum þar. Þeir settu á fót þekkingarsetur og náttúrustofu og á undangengnum árum hafa um 15–20 manns verið að vinna þar. Margt af unga fólkinu, menntaða fólkinu, hefur haft tækifæri til þess að koma aftur heim til þess að stunda atvinnu í samræmi við þá menntun sem það hefur.

Það er sú byggðastefna sem við eigum að reka á 21. öldinni. Það er hrikalegt ef menn ætla að skera niður framlög og stuðning við þessa starfsemi, þarna er margt stórmerkilegt að gerast.

Ég vona þess vegna að hv. flutningsmaður Ólína Þorvarðardóttir muni beita sér fyrir því sem stjórnarþingmaður að þessi mikli niðurskurður verði stoppaður gagnvart þeim merkilegu verkefnum sem hún og aðrir ræðumenn hafa farið yfir. Ég styð þingsályktunartillöguna með því fororði að ekki verði af þeim gríðarlega mikla niðurskurði sem blasir við í augnablikinu. Við höfum séð að hjá stofnunum sem styðja við atvinnulíf á Austfjörðum blasir að öllu óbreyttu við óviðunandi niðurskurður og munum við þingmenn Norðausturkjördæmis funda um þau málefni vonandi á allra næstu dögum.

Mig langar í öðru lagi að ræða um hina þingsályktunartillöguna sem nefnist „Tillaga til þingsályktunar um Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða“. Hana flytja sjö þingmenn. Ég var að átta mig á þeirri merkilegu staðreynd að þeir koma allir úr sama kjördæminu, en það er væntanlega tilviljun — og þó ekki, ég skil vel að menn þurfi að sinna þörfum kjósenda sinna eins og þeir eru kjörnir til. En ég vil nefna það hér, án þess að ég vilji útiloka að við getum átt ágætissamstarf um þá hugmyndafræði sem í þessu felst, að á öðrum stað á landinu, nánar tiltekið í Háskólanum á Akureyri, er gríðarlega mikil þekking á sjávarútvegsfræðum. Ég hefði viljað fá það á hreint í umfjöllun um þessi mál hvort nokkuð sé verið að stefna þessum tveimur aðilum upp hvor gegn öðrum, eða hvort við getum í sameiningu jafnvel stuðlað að eflingu þessa fræðasamfélags á báðum stöðum, vegna þess að því miður hefur mikið verið sótt að Háskólanum á Akureyri að undanförnu í ljósi erfiðs efnahagsástands. Það starf hefur verið ein af skrautfjöðrum þessa háskóla sem er háskóli landsbyggðarinnar. Ég get engan veginn sætt mig við ef menn ætla — ég ætla mönnum það ekki — að rífa einhverja hluta af þeirri þekkingu sem er innan háskólans og flytja burt, það er eitthvað sem ég get ekki sætt mig við.

Það er því mikilvægt í þessari umræðu að vinda ofan af málinu og við þurfum að sjá hvert við stefnum í þeim efnum. Svo eigum við náttúrlega eftir að vinna málið frekar.

Ég vil að lokum segja að ég hefði gjarnan viljað hafa lengri tíma til þess að ræða bæði þessi mál. Ákveðið var að smella þeim saman í ljósi þess að hv. flutningsmaður hefur öðrum skyldum að gegna í þágu þings og þjóðar. Það er af mjög skiljanlegum ástæðum sem málin tvö eru rædd samtímis en við erum að ræða um algjör grundvallarmál. Mál sem þessi verðum við að ræða til hlítar.

Ég ætla að enda ræðu mína á uppbyggilegu nótum, sem ég tel að við eigum að gera í ríkari mæli á þingi, neikvæð umræða á undangengnum tveimur árum er orðin dálítið þreytandi. Það er þess vegna mikilvægt að við tökum höndum saman, eftir að hafa orðið vitni að því að háskólasetur, þekkingarnet og hvaðeina sem mikilvæg samfélög vel menntaðs fólks á landsbyggðinni hafa byggt upp á undangengnum árum — við megum ekki glutra því niður vegna þess að hér er um framtíðarmál að ræða fyrir hinar dreifðu byggðir. Ég legg til og vonast til þess að hv. þingmaður taki undir það með mér að farið verði sérstaklega ofan í það við fjárlagagerðina að við skerum ekki þessar stofnanir niður. Þarna vinnur oftar en ekki mjög hæfileikaríkt, ungt, vel menntað fólk, fólk sem oft og tíðum hefur snúið aftur til síns heima. Ef við ætlum að stuðla að því í fjárlögum ársins 2011 að þessar stofnanir og það merkilega — ég vil kalla það fyrirbæri, ég veit ekki hvort það er jákvætt orð, það merkilega starf sem unnið hefur verið vítt og breitt um landið og gefið byggðunum von, ef það er stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að skera harkalega niður framlög til þess starfs og þessara stofnana, mun ég ekki samþykkja það. Það verður rætt allítarlega á vettvangi þingsins ef sú verður stefnan. Síðan hefur reyndar komið svo margt fram í fjárlagafrumvarpi því sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem fær ekki staðist neina skoðun. Mér sýnist að stjórnarliðar séu margir hverjir að keppast við að hrópa niður margar tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, sem betur fer, sérstaklega í heilbrigðismálum, þannig að ég vona að ég eigi bandamann í hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar kemur að því að efla nýsköpun og þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni sem verið hefur að byggjast upp á undangengnum 10–15 árum. Við megum ekki við því að vega að þessum mikilvægu stofnunum.