139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki þeirri fyrirspurn sem ég lagði fram er snertir starfsemi háskólans á Akureyri. Mun þessi tillaga, verði hún samþykkt, leiða til þess að einhverjum ákveðnum greinum innan háskólans þar sem er sérþekking í dag verði úthýst þaðan? (ÓÞ: Nei.) Það er mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni.

Þar með er væntanlega ekki verið að etja landshlutunum saman. Mér finnst bara mikilvægt að við náum því fram í þessari umræðu hvert við viljum stefna með þessum ályktunum.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að menn þurfa að sýna aðhald en það verður að vera á ákveðnum sviðum og menn þurfa að forgangsraða.

Ég spyr, af því að að við höfum mikið rætt um þekkingarsetur og háskólasetur vítt og breitt um landið — og náttúrustofur, bætum því við, það er vísindagrein líka — hvort hv. þingmaður muni styðja tillögur í fjárlagafrumvarpi því sem lagt hefur verið fram fyrir árið 2011 um að það verði stórfelldur niðurskurður á fé — ég segi stórfelldur niðurskurður — til þessarar starfsemi. Hingað til hafa íbúar þessara byggðarlaga og við mörg sem höfum orðið vitni að þessari uppbyggingu, litið á hana sem einn af vaxtarsprotum margra samfélaga þar sem mjög gott starf hefur verið unnið, hún hefur bætt mjög ímynd og umhverfi staðanna og unga fólkið hefur komið aftur heim og fengið tækifæri til þess að vinna í sinni gömlu heimabyggð. Ætlar hv. þingmaður að standa að þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram?