139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[19:13]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tillagan um Vestfirði lýtur ekki að því að svæðið verði skilgreint sem meginvettvangur kennslu og rannsókna á sviði sjávarútvegsfræða heldur einungis að það verði skilgreint sem vettvangur til slíkra rannsókna og kennslu. Á þessu er grundvallarmunur. Þannig að umsögn Háskólans á Akureyri sem vísað var til hér er augljóslega byggð á misskilningi.

Nú þegar er í gangi samstarf milli Háskólans á Akureyri og Háskólaseturs Vestfjarða sem m.a. byggir á sérþekkingu beggja staðanna. Háskólasetur Vestfjarða er þannig í reynd útibú frá Háskólanum á Akureyri og samstarfið sem þar hefur tekist er því liður í eflingu Háskólans á Akureyri. Ég tel að fjármunum sé ágætlega varið til að efla Háskólann á Akureyri þó ég persónulega vildi auðvitað helst sjá sjálfstæðan háskóla Vestfjarða. En það var ekki stefnan sem var tekin á sínum tíma. Þar af leiðandi er rannsókna- og fræðastarfið í þeim farvegi sem það er núna, í reynd og að hluta til, sem útibú frá Háskólanum á Akureyri.

Ég held því að það sé mikill misskilningur hjá þingmanninum ef hann heldur að sú stefnumótun og skilgreining verkefna sem hér er lögð til feli í sér að vegið sé að undirstöðum rannsókna- og fræðastarfs annars staðar á landinu.