139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

uppsögn fréttamanns hjá RÚV.

[13:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli telja mikilvægt að huga að starfskjörum fréttamanna. Það er mjög mikilvægt af ýmsum ástæðum, m.a. þeim að fréttamenn og stjórnendur fjölmiðla geta verið í þeirri stöðu, sérstaklega auðvitað ef sá fjölmiðill er undir stjórn ríkisins, að spyrja sig spurninga um það hvernig yfirmönnunum eða þá fulltrúum ríkisins í tilviki ríkisfjölmiðla líki fréttaflutningur. Það er mikilvægt að losa fréttamenn undan þessari spurningu, að hún sé stöðugt hangandi yfir þeim, og hafa reglur þannig að það hvetji ekki til slíks heldur þvert á móti.

Spurningin er: Ef sá fréttamaður sem hér er rætt um þurfti að víkja úr starfi vegna samskipta sinna eða tengsla við tiltekinn stjórnmálamann, er þá hæstv. ráðherra á því að eitt eigi yfir alla að ganga, að séu aðrir fréttamenn í tilteknum pólitískum tengslum við aðra stjórnmálamenn eða tali fyrir ákveðnum pólitískum skoðunum (Forseti hringir.) þurfi þeir þá samkvæmt jafnræðisreglu að víkja líka?