139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

skýrsla ESB um framgang aðildarviðræðna.

[13:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bera upp spurningu við hæstv. utanríkisráðherra í framhaldi af því að nú er nýkomin út skýrsla Evrópusambandsins um framgang aðildarviðræðnanna, svokölluð „progress report“. Í henni er farið yfir hina ýmsu kafla sem eru núna til skimunar eða eru í þessum rýnihópum og í lok hvers kafla er samantekt um það sem ber í milli þegar skoðuð er íslensk löggjöf og regluverk Evrópusambandsins. Það á við um öll svið, allt frá heilbrigðissviðinu yfir til landbúnaðarsviðsins, þar sem augljóst er að við Íslendingar uppfyllum ekki skilyrði þess að ganga inn í Evrópusambandið með núverandi landbúnaðarstefnu á Íslandi.

Fyrir skömmu ritaði utanríkisráðherra bréf til Bændasamtaka Íslands þar sem Bændasamtökin inntu hann eftir því hvort á því viðræðutímabili sem fram undan er yrði að eiga sér stað aðlögun á íslensku stjórnkerfi og íslenskum reglum eða hvort það gæti beðið seinni tíma. Í svarbréfi utanríkisráðherra kemur fram að það muni bíða seinni tíma, það verði sem sagt haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn eins og hann verður og engar aðlaganir eigi sér stað fyrr en í fyrsta lagi eftir að í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur verið samþykktur sá samningur sem borinn verður undir þjóðina.

Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Verður þetta þá þannig að það safnast upp á einhvers konar tossalista öll þau atriði sem við eigum eftir að framfylgja verði samningurinn samþykktur? Hversu mörg ár telur utanríkisráðherra að það muni geta tekið okkur að tæma þann lista? Mér sýnist að það geti tekið okkur allt að þrjú ár, jafnvel fleiri, eftir að samningur hefði verið afgreiddur í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan í framhaldinu að sjálfsögðu af þinginu, (Forseti hringir.) að fara í gegnum þann tíma og síðan þá önnur fimm ár eftir að því er lokið til að geta tekið upp evru.