139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

samgöngumiðstöð.

[13:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Áföllin dynja á landsbyggðinni. Hvort sem um er að ræða niðurskurð í heilbrigðismálum eða fóturinn á einhvern hátt settur fyrir atvinnuskapandi verkefni úti um allt land er ljóst að landsbyggðinni blæðir.

Á mbl.is kom í gær fram að hætt hefði verið við áform um að reisa samgöngumiðstöð norðan megin við Loftleiðahótelið heldur á núna að kanna reisa hana vestan megin. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra út í þessa ákvörðun sem kemur bæði frá ríki og borg. Hæstv. samgönguráðherra, þ.e. fulltrúi Vinstri grænna, Besti flokkurinn og Samfylkingin, þar sem varaformaðurinn situr í borgarráði, hafa ákveðið að slá af einhverja mikilvægustu framkvæmd sem snýr að landsbyggðinni. Þetta er einfaldlega enn eitt áfallið fyrir hana.

Ég vil líka benda á að þetta mál og þessi framkvæmd skiptir borgarbúa gríðarlega miklu máli vegna þess að til stóð að lífeyrissjóðir kæmu að framkvæmdinni sem hefði orðið verulega atvinnuskapandi í borginni. Nú vil ég fá á hreint, eins og íbúar landsbyggðarinnar, hver staðan í þessu máli er. Á að byrja algjörlega frá grunni vinnu sem hefur núna staðið í átta ár? Hvaða tímamörk erum við að ræða í þessu samhengi?