139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

samgöngumiðstöð.

[13:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum átti ég ágætan fund í gær með borgarstjóranum í Reykjavík og formanni borgarráðs þar sem fjallað var um samgöngumiðstöð eða bætta aðstöðu fyrir innanlandsflugið á Reykjavíkurflugvelli. Það varð sameiginleg niðurstaða af þeim fundi að ráðist yrði hið allra fyrsta í að bæta aðstöðuna fyrir innanlandsflugið. Þá horfum við til flugfarþega og starfsfólks sem þessu sinnir.

Það hafa verið deilur um hvernig eigi að haga þessum málum. Tillagan um samgöngumiðstöð kom upphaflega frá Reykjavíkurborg, hygg ég, en var studd af samgönguráðherra, forvera mínum í embætti. Ég breytti ekki um kúrs hvað það varðar og lýsti því yfir að ég yrði ekki sá sem mundi slá þau áform út af borðinu. Þetta þarf hins vegar að vera sameiginlegt verkefni. Það er háð skipulagsákvörðunum Reykjavíkurborgar hvað varðar samgöngumiðstöðina sem slíka, tengingu við vagnakerfið hér og aðra þjónustu, en það sem mestu máli skiptir frá mínum bæjardyrum séð er að bæta aðstöðuna fyrir starfsfólk og flugfarþega.

Ég er sjálfur fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði hér til framtíðar. (Gripið fram í.) Um þetta eru deildar meiningar. Þetta er þverpólitísk deila, gengur á alla flokka. Mín afstaða er hins vegar alveg skýr, en óháð þessum mismunandi sjónarmiðum varðandi framtíð flugvallarins er niðurstaðan sú að aðstaða fyrir innanlandsflugið verði bætt og ég hygg að það sé miklu skynsamlegri lausn í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem við erum að fara í gegnum að byggja vestan megin við völlinn. Þar eru flugplön til staðar, framkvæmdin verður miklu ódýrari og (Forseti hringir.) í samræmi við vilja beggja þannig að það er að fást í þetta sameiginleg og farsæl niðurstaða.