139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framtíð Reykjavíkurflugvallar og samgöngumiðstöð.

[13:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum þá sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að völlurinn á að vera hér. Og hann verður vonandi hér. Ég fagna því að þetta eigi þá að vera í einkaframkvæmd, það er þá skýrt. Hvenær sér hann fyrir sér að framkvæmdir geti farið af stað, hefur eitthvað verið rætt við lífeyrissjóðina um þetta?

Það er í mínum huga ekkert heilagt að byggja þessa umræddu samgöngumiðstöð á þeim stað sem var fyrirhugað. Aðalatriðið er að myndarlega verði byggt upp á Reykjavíkurflugvelli þannig að flugþjónustan þar geti verið sæmandi, bæði fyrir alla þá innlendu farþega sem fara um völlinn og þurfa á þessari þjónustu að halda og ekki síst til að styðja við aukinn ferðamannastraum sem notar völlinn einmitt til að ferðast um landið okkar.

Ég hræðist þá stefnu sem kemur nú svo skýrt fram hjá þeim sem eru við stjórnvölinn í Reykjavík um að völlurinn eigi að fara og það skuli vera niðurstaðan. Ég vil fá mat ráðherrans á því hvernig það stendur. Er þá ekki alveg augljóst að meðan þetta er óljóst (Forseti hringir.) verðum við að slá á frest öllum framkvæmdum við Landspítala – háskólasjúkrahús? Ein af grundvallarforsendunum fyrir þeirri framkvæmd, sem ég er reyndar andvígur og (Forseti hringir.) staðsetningu hennar, er að völlurinn verði hér til framtíðar.