139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

[14:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að beina fjórum spurningum til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Það er stutt til áramóta, mjög stutt, eingöngu 15 fundadagar eftir.

Hvenær megum við vænta þess að það komi lagafrumvarp um flutning á málefnum fatlaðra inn í þingið? Ég er ekki hlynntur því að þingið kalli eftir frumvörpum, ég vil að þingnefndirnar semji þau sjálfar. Staðan er hins vegar sú að það hefur verið boðað að það eigi að flytja málefnin og ég spyr: Hvenær er þess að vænta að hv. félagsmálanefnd geti farið að senda málið til umsagna og fá gesti?

Hvenær lýkur stefnumótun ráðuneytisins um málefni fatlaðra sem hófst árið 2004? Það er mikilvægt að henni verði lokið áður en málefni fatlaðra verða flutt þannig að öll sveitarfélögin sem yfirtaka málaflokkinn viti hvernig á að vinna málið.

Hvenær var síðast framkvæmt mat á fötluðum sem gera á árlega samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra? Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Fjárlagatillögur vegna þjónustustofnana [skv. 9. gr.] og heimila fatlaðra [skv. 3.–6. tölul. 10. gr.] skulu miðast við mat á þjónustuþörf. Skal slíkt mat fara fram þegar starfsemi hefst og síðan árlega.“

Mér er kunnugt um að þetta hafi t.d. ekki verið gert síðustu átta árin á Sólheimum.

Síðan spyr ég varðandi Sólheima: Hyggst ráðherrann gera samkomulag við Sólheima fyrir 1. desember eða a.m.k. fyrir áramót sem tryggi 43 fötluðum einstaklingum dvöl þar og að mat fari fram á fötlun þeirra samkvæmt þessari grein sem ég las upp áðan? Sólheimar hafa verið samningslausir í tvö ár og það er spurning út af fyrir sig hvernig hægt (Forseti hringir.) er að greiða fjárveitingar án samnings.