139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er reyndar dapurlegt til þess að vita að menn fari ekki að lögum því að þetta mat á að fara fram árlega. Það er líka dapurlegt að vita til þess að starf Sólheima, sem hefur staðið í 80 ár og hefur verið ákveðið frumkvöðulsstarf varðandi málefni fatlaðra, sé skilið eftir í lausu lofti og ekki gerður samningur við þá fyrir fram sem tryggir þessum 43 fötluðu einstaklingum dvölina.

Svo er það athyglisvert sem hæstv. ráðherra sagði um stéttarfélögin. Við setjum á laggirnar ákveðnar stofnanir til að sinna þörfum skjólstæðinga, þeirra sem njóta þjónustunnar. Stofnanirnar fara fljótlega að snúast um starfsmennina og nú er m.a.s. vandamálið ekki starfsmennirnir heldur stéttarfélögin sem hirða félagsgjöld af starfsmönnunum samkvæmt lögum. (Forseti hringir.) Það er athyglisvert að þetta eru 70 millj. kr. sem stéttarfélögin eru að deila um.