139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég verð að hryggja þingmanninn Vigdísi Hauksdóttur með því að ég mun segja nei ef þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu hér. Eins og við vitum öll eru skoðanir þjóðarinnar í þessu sem öðru núna mjög óstöðugar. Það er mikil ólga í þjóðfélaginu. Við höfum séð að skoðanakannanir sveiflast frá mánuði til mánaðar frá því að fylgi sé mjög mikið við þessa umsókn og aðildarferli allt saman í það að vera mjög lítið. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan var stofnað til þessa með lýðræðislegum hætti þótt gagnrýna megi ýmislegt og mér finnst að það ferli eigi að halda áfram og klárast.

Þingmaðurinn sagði í ræðu sinni áðan að ríkisstjórnin hefði bara meiri hluta á sunnudögum. Ég held að meiri hluti sé fyrir því í þinginu alla daga vikunnar að halda þessu ferli áfram, hvað sem fólk vill gera, hvort það vill persónulega sjálft ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það eru náttúrlega ýmsar leiðir til þess. Margir eru hreinlega að flytja þangað og við skulum vona að ekki komi til þess að fleiri Íslendingar geri það en þegar hafa farið en það gæti alveg orðið ef ákveðinn hringlandaháttur hjá ríkisstjórninni í öðrum málum en þessu og framtaksleysi heldur áfram. En ég ítreka að mér finnst ríkisstjórnin hafa staðið sig ágætlega í þessu máli. Hins vegar finnst mér margt gagnrýnivert í því hvernig byrjað var á þessu ferli og ég mundi vilja meiri kynningu og betri upplýsingaflæði til almennings, t.d. í gegnum fjölmiðla því að það er ákveðin dulúð í þessu. Þetta er flókið ef fólk hefur ekki sett sig fyllilega inn í þetta og það ýtir undir tortryggni.