139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir að taka þátt í þessum umræðum. Ég er samt nokkuð undrandi yfir orðum hans í ræðunni. Er það virkilega skoðun þingmannsins að Alþingi hafi samþykkt 16. júlí 2009 að fara í aðlögunarviðræður? Er það það sem þingmaðurinn meinar með því að lesa upp úr greinargerðinni? Allan tímann var látið líta út fyrir þingi og þjóð að um umsókn væri að ræða.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kemur fram og kvartar yfir því hversu seint ferlið gengur. Var einhvern tíma búið að lofa Íslendingum því að þetta ferli mundi taka skamman tíma? Það var hæstv. utanríkisráðherra sem belgdi sig hér út trekk í trekk í fyrrasumar yfir því að hann hefði svo góð sambönd þar inni að ferlið mundi verða mjög snöggt, enda átti náttúrlega að fara með okkur á hraðferð þangað inn og það átti að blekkja íslensku þjóðina með því að fara þar inn.

Mig langar til að benda hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, í kjölfarið á að hann margítrekar í ræðu sinni að þjóðin eigi að ráða. Ég og flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu erum að leggja hana fram til þess að þjóðin fái að ráða. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson verður að gæta samræmis í málflutningi sínum. Þessi þingsályktunartillaga gengur fyrst og fremst út á þjóðarsátt á þeim erfiðu tímum sem við göngum núna í gegnum sem þjóð, að þjóðin fái að ráða því hvort eigi að eyða meiri tíma, orku og peningum í þetta aðlögunarferli og að þjóðin fái að ráða því hvort farið verði að huga að innanríkismálum og hjálpa heimilum og fjölskyldum og síðast en ekki síst koma atvinnulífinu af stað.