139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi alls ekkert hlustað á ræðuna mína.

Ég var að sjálfsögðu ekki að tala um að ég væri þeirrar skoðunar að í gagni væru aðlögunarviðræður, þingmaðurinn sagði: Vegna þess að hann les upp úr nefndarálitinu eða framsöguræðu með frumvarpinu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að hér séu í gangi aðlögunarviðræður, alls ekki. Ég tel að hér séu í gangi umsóknarviðræður eins og Alþingi samþykkti að skyldu fara fram. Ég tel að Alþingi — og ríkisstjórnin er að sjálfsögðu bundin af samþykktum Alþingis — hafi samþykkt að fara í þessar viðræður og ríkisstjórnin eigi að gera það á þann hátt sem mestur sómi sé að og eigi að sjálfsögðu að gæta hagsmuna Íslands. Alþingi og þær þingnefndir og þeir þingmenn sem koma að þessum málum, t.d. utanríkismálanefnd, eiga líka að virða þann vilja og þá samþykkt Alþingis, burt séð frá hvaða skoðun menn kunna síðan að hafa á málinu. Ég hef notað hvert tækifæri sem ég hef fengið til þess að koma skoðunum mínum og flokks míns á framfæri og það geta félagar mínir í utanríkismálanefnd vitnað um sem hafa oft verið með mér á fundum með fulltrúum Evrópusambandsins.

Þingmaðurinn segir að ég kvarti yfir því að ferlið gangi seint. Ég var ekkert að kvarta yfir því, alls ekki. Ég sagði að það sem hefði gerst væri að ferlið hefði tekið lengri tíma en margir hefðu gert ráð fyrir en það væri að grunni til algjörlega eins og nefndarálit utanríkismálanefndar lýsti því. Það væri algjörlega eins þó að það kynni að hafa tekið lengri tíma, ekki kvartaði ég yfir því nema síður væri.

Í þriðja lagi nefnir þingmaðurinn að ég hafi talað um að þjóðin fái að ráða og það sé undarlegt að ég vilji þá ekki styðja þessa tillögu. Ég tel að þjóðin eigi að fá að ráða því hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Ég tel að það sé best gert með því að það liggi þá fyrir nákvæmur samningur um hvað felist í aðild Íslands að Evrópusambandinu og þjóðin kjósi um það á efnislegum forsendum. Það tel ég vera mikilvægt. Ég tel ekki að atkvæðagreiðsla um hvort fara eigi í ferlið eða ekki — fyrir utan að Alþingi felldi tillögu þar að lútandi — sé ígildi þess að (Forseti hringir.) þjóðin ráði því hvort hún fari í Evrópusambandið eða ekki.