139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann — ég þakka honum fyrir ágæta ræðu — í fyrsta lagi hvort hann hafi trú á fjármagni og áróðri, að fjármagn geti breytt skoðunum fólks nógu mikið og hvort eitthvað hafi verið rætt í utanríkismálanefnd um þá styrki sem Evrópusambandið er að veita til Íslands til að breyta skoðunum Íslendinga á Evrópusambandinu og segja Íslendingum hvað það sé óskaplega gott.

Svo langar mig í öðru lag til að spyrja hv. þingmann: Hver er hans sannfæring, vill hann sjá Ísland í Evrópusambandinu eftir tíu ár? Hefur hann sem einstaklingur þá sannfæringu að Ísland eigi að vera í Evrópusambandinu? Getur verið að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu breyti þeirri sannfæringu? Þá allt í einu hugsi hann: Ja, ég sem Íslendingur vil hafa Ísland í Evrópusambandinu um alla framtíð. Getur verið að sannfæringin breytist eftir niðurstöðu kosninga? Ég vil fá svar við því.

Svo minni ég á að þegar þetta kemur til umræðu eftir kosningar og búið er að kjósa nýtt þing og svoleiðis gæti aftur farið í gang svokölluð kattasmölun sem er alveg sérstakt nafn á því hugtaki þegar menn greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni til að viðhalda ríkisstjórn.