139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get engu svarað fyrir Evrópusambandið um þá upplýsingaþjónustu sem þeir kunna að vera með hér á landi og veit ekkert um það hvaða upplýsingar þar eru á ferðinni. Ég held að við getum hins vegar sameinast um það, við hv. þingmaður að það hlýtur að vera hægt að fá þær upplýsingar inn t.d. á vettvangi þingnefnda ef óskað verður eftir því.

Aðeins varðandi formlegar samningaviðræður og fyrirkomulag þeirra þá vísa ég, og það rökstyður það sem ég sagði með Króatíu og gömlu Austur-Evrópuríkin, til bls. 7 í nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 249 frá 2009 þar sem er fjallað um þetta. Þar er rakið hvernig breyting hefur orðið á stækkunarviðræðunum og það er fjallað um að það gefi sem minnst af frestum til að uppfylla skilyrði áður en köflum er lokað en síðan segir: „Slíkt er að sjálfsögðu óháð þeim aðlögunartíma og undanþágum sem kann að semjast um.“

Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði. Það eru þættir sem við ætlum okkur að semja um við Evrópusambandið að því er varðar (Forseti hringir.) sjávarútveginn og landbúnaðinn svo dæmi sé tekið. Þess vegna ættum við ekki að undirgangast það að þurfa að aðlaga eitthvað slíkt áður en þjóðin tekur ákvörðun um það hvort hún fer þarna inn eða ekki.