139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að Evrópusambandið sjálft segir að það sé bara ein leið inn í Evrópusambandið, það sé leið aðlögunar og þetta liggur alls staðar ljóst fyrir.

Mig langar aðeins að koma inn á orð hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur þegar hún talaði um óstöðugt ástand í íslensku samfélagi. Ég held að í ljósi þess að við erum komin í slíkar ógöngur með þessa umsókn, sem er orðin að aðlögun, sé gríðarlega mikilvægt að taka málið upp úr þessum förum, annaðhvort að menn setjist niður og fari að ræða þetta eins og það er, finni á því lausnir, eða fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem væri auðvitað heppilegast. Því fyrr sem menn komast upp úr þessum farvegi, að verja eitthvað, tala gegn Evrópusambandinu, þeim mun fyrr er hægt að ná lendingu í þessu máli og sætta menn hér innan dyra og utan.

Við erum að glíma við gríðarlega stór og mikil verkefni á öllum sviðum. Það er mjög mikilvægt að við eyðum þessu sem tengist Evrópusambandinu þannig að hægt sé að einbeita sér að öðrum verkefnum. Væri farin sú leið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og komist þjóðin að því að við eigum að fara alla leið með allri þeirri aðlögun sem því tengist, setja upp greiðslustofnun, ríkisstofnanir, umbylta öllu, þá gerum við það. En komist þjóðin að því að við eigum ekki að gera það þá hættum við því.

Ég skil ekki af hverju menn eru svona hræddir við að hleypa þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi létta þeirri spennu sem væri á þessu máli, það mundi létta þeirri spennu sem væri á þjóðinni. Ég furða mig á því en vonast jafnframt til þess að menn sjái ljósið í þessum efnum.