139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns fyrir þessu erindi, Vigdísar Hauksdóttur, fóru á síðasta ári fram tvær atkvæðagreiðslur um þjóðaratkvæði í þinginu. Ein var um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarumsóknar Evrópusambandsins, þ.e. að fyrst yrði kosið um hvort fara ætti í aðildarviðræðurnar og síðan eftir að aðildarviðræðum væri lokið. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu í þinginu. Önnur tillaga var hins vegar samþykkt í þinginu, um að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það ferli er nú í gangi, það ferli gengur vel. Þeir einu sem eru í öngstræti eða vandræðum í þeim efnum eru þeir sem voru á móti í atkvæðagreiðslunni um tillöguna um að óska eftir aðildarviðræðum.

Ég ætla ekki að fara inn í ruglið þeirra um aðild eða aðlögun. Það er einn útúrdúrinn sem andstæðingar þess að Ísland sækist eftir því að vera í félagsskap evrópskra þjóða hafa komið sér upp. Ég kannast hins vegar ekki við það að einhver sem mælti fyrir því að við færum þessa leið hafi sagt í þessum ræðustóli eða annars staðar að um einfaldar samningaviðræður yrði að ræða. Samningaviðræður við Evrópusambandið geta aldrei verið einfaldar. Það er mjög flókið ferli. Það er mjög flókið fyrir þá sem semja fyrir hönd Íslands hvað við eigum að setja fram og hvað þjóðin gæti hugsanlega sætt sig við.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem við erum aðilar að er ástæðan fyrir því sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi áðan, að hér koma inn nánast vikulega eða a.m.k. mánaðarlega alls konar gerðir frá Evrópusambandinu og þar hefur Ísland aðlagað lög sín og reglur að Evrópusambandinu. Það er alveg hárrétt. En að einhver hafi einhvern tíma haldið því fram í þessum ræðustól að samningaviðræður við Evrópusambandið um sjávarútveg, landbúnað, eitt tollasvæði, um byggðakjarna, yrðu einfaldar — ég veit ekki hvaða fólk hefur gert það.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi haldið vel á málunum. Ég sé það sem kemur út úr framgangsskýrslunni sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti á dögunum. Mér sýnist þeir telja að málið gangi vel, það gangi áfram í þeim farvegi sem þeir áttu von á. Ég get tekið undir það sem hefur komið fram áður að fram til þessa hefur þetta kannski tekið lengri tíma en sum okkar áttu von á. Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan héldu margir að ráðherraráðið mundi samþykkja að hefja aðildarviðræður við okkur hálfu ári áður en raun varð á. Það er þá bara svoleiðis.

Ég vil líka taka vara við því að fólk ætli að halda öllu í stöðnun í þau eitt, tvö eða þrjú ár sem við eigum eftir þangað til samningarnir liggja fyrir. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom mjög vel inn á það atriði að mínu mati. Við hljótum að halda áfram að breyta þeim lögum og reglum sem við teljum til bóta. Þótt við séum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið ætlum við ekki að sitja bara kyrr og gera ekki neitt þangað til niðurstaða kemur. Við vitum það hins vegar að ástæðan fyrir því að við erum að semja er sú að við ætlum ekki að ganga að öllum reglum og lögum Evrópusambandsins eins og þau eru í dag. Þess vegna erum við í samningaviðræðum. Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þessar umræður á köflum nánast óskiljanlegar.

Ég vildi bara koma upp til að það væri alveg ljóst að ég veit að ríkisstjórnin hefur fullt umboð þingsins til að halda áfram samningaviðræðunum. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir telji að þegar samningur liggur fyrir þá eigi að bera hann undir þjóðaratkvæði. Svo ekki þurfi að spyrja mig að því, þá er sannfæring mín að öllum þeim sem greiða atkvæði í þessum sal beri að fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar.