139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð merkilegt ef þingmaður telur það ekki svara vert þegar spurningu sem varðar stjórnarskrána er beint til hans en við höfum öllsömul skrifað undir eið að stjórnarskránni. Ég ætla þó ekki að fjalla meira um það.

Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir. Hún vísaði í orð sem ég lét falla í ræðu áðan. Jú, svo sannarlega er verið að innleiða reglugerðir og tilskipanir frá Evrópusambandinu en það er notað sem yfirskin. Ég nefni t.d. landnýtingaráætlun, vatnatilskipun, rammaáætlun og breytingu á EES-samningnum sem gerir að verkum að við erum orðin bundin af lögum að borga inn í styrkjakerfi Evrópusambandsins. Landnýtingaráætlunin var t.d. til þess gerð að Evrópusambandið gæti aflað sér landsupplýsinga og kortlagt Ísland fyrir styrkjakerfi landbúnaðarins. Ég ætla að spyrja: Styður þingmaðurinn ekki þessa þingsályktunartillögu að þjóðin fái að segja skoðun sína?