139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið nokkuð góð og málefnaleg umræða og það ber að þakka, reyndar kom margt sérkennilegt fram sem ég mun koma inn á á eftir.

Hér er lagt til að þjóðin segi álit sitt á því hvort halda eigi áfram því ferli sem við erum komin í sem samkvæmt utanríkisráðuneytinu, ég fletti þar upp, er aðildarferli. Þingmönnum var selt á sínum tíma og margir vitnuðu í það að þetta væru viðræður og svo ætluðu menn að sjá hvað út úr þeim viðræðum kæmi, svona kíkja í pokann til að sjá hvort það væri nógu mikið nammi í honum og ef það væri gott ætluðu þeir að greiða atkvæði með því. Þeir greiddu ekki atkvæði um það eins og stendur hér á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, ef ég má lesa það, með leyfi frú forseta:

„Almennt ferli við umsókn að Evrópusambandinu. Formlegt upphaf. Aðildarferlið hefst formlega með því að ríki sem óskar aðildar sendir aðildarumsókn til ráðherraráðs ESB.“

Þetta stendur þarna. Þetta eru ekki viðræður, þetta er aðildarferli. Ég hygg að mjög margir þingmenn sem lýstu því yfir að þeir vildu fyrst kíkja á hvað viðræðurnar gæfu og síðan þegar kominn væri einhver fallegur samningur, að það mætti veiða þorsk o.s.frv. í 20 ár eða hvað það nú er, ætti að bera það undir þjóðina. Það er ekki þannig. Við erum að aðlagast aðild að Evrópusambandinu, við erum að aðlagast Evrópusambandinu.

Umsóknin, ég ætla að lesa hana, frú forseti. Þessi umsókn er fjórar línur og það vill svo til að ég óskaði eftir íslenskri þýðingu á henni og ég fékk það svar, frú forseti, að það sé ekki til þýðing á þessu bréfi. Ég settist því niður með mína enskukunnáttu, og ég ber ekki ábyrgð á því að ég verð víst að halda mál mitt hér á íslensku en ég ætla að byrja á því að lesa þetta litla bréf á ensku, framburðurinn, menn verða afsaka hann bara fyrir fram. Þetta er skrifað í Reykjavík 16. júlí 2009:

„Mr. President.

The Government of Iceland has the honour to present hereby, in conformity with Article 49 of the Treaty of European Union, the application of the Republic of Iceland for membership of the European Union.

Please accept, Mr. President, the assurances of our highest consideration.“

Þetta er ekki til á íslensku, frú forseti, en fyrir þá Íslendinga sem eru ekki sleipir í ensku reyndi ég að þýða þetta með minni enskukunnáttu:

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands er heiður að því að leggja hér fram, í samræmi við 49. gr. grunnsáttmála Evrópusambandsins, umsókn lýðveldisins Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég fullvissa yður, herra forseti, um okkar einlægu virðingu.

Meira er það ekki. Ef öll 27 ríkin segðu já værum við orðnir aðilar, Íslendingar, það er svo einfalt. Hér er ekki vitnað í mjög veigamikla þingsályktun sem Alþingi samþykkti í mörgum liðum þar sem átti að hafa samráð við utanríkismálanefnd og ég veit ekki hvað og hvað, það er ekki vitnað í það. Það er ekki beðið um viðræður heldur, enda eru þetta ekki viðræður, þetta heitir aðildarferli.

Það er heldur ekki vitnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda vita náttúrlega þeir sem til þekkja að hún hefur ekkert að segja. Ekki heldur í stjórnarskrárbreytingu því að þetta gengur ekki í gegn nema stjórnarskránni sé breytt. Fólkið úti í Brussel sem les þessa makalausu aðildarbeiðni veit kannski ekkert af þessu öllu saman. Þetta er um aðildina og nú hefur þjóðin loksins fengið íslenska þýðingu á þessu því að hún liggur hvergi fyrir.

Vinstri grænir greiddu margir atkvæði hérna með afskaplega hangandi hendi og merkilegust er náttúrlega ræða hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, það er ræða sem menn eiga að lesa svona einu sinni á dag sér til skemmtunar. Hún sagði: Ég er á móti Evrópusambandinu, þetta er hernaðarbandalag o.s.frv., ég er á móti, á móti, á móti. Ég segi já.

Þetta var vegna þess að menn voru að bjarga ríkisstjórninni, ekki vegna sannfæringar sinnar, ég er sannfærður um það. Um þetta hefur síðan orðið til hugtakið „kattasmölun“, það er komið ákveðið hugtak yfir þetta fyrirbæri þegar menn greiða atkvæði til að bjarga ríkisstjórn en ekki út af málefninu sjálfu og það hefur verið nokkuð oft.

Það er dálítið miður, frú forseti, því að Vinstri grænir unnu kosningarnar vegna þess að þeir vildu ekki ganga í Evrópusambandið og þeir vildu ekki eiga samband við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þeir voru á móti Icesave. Þeir unnu kosningarnar á þessum grundvelli. Svo er allt svikið en áfram halda þeir samt.

Ég ræddi áðan um áróður. Hér kemur inn í landið mjög mikið af peningum. Þeir eiga að fara í það að kynna fyrir Íslendingum hve Evrópusambandið er yndislegt og gott og allt svoleiðis og svo auk þess styrkir til alls konar vísindarannsókna og annars slíks, bara hrein vinna fyrir fólk, atvinna, sem er mikils virði í dag. Ég gat um það líka að þessir peningar geta leitt til þess að menn fái vinnu og verði ánægðir því að fólk metur oft þann sem borgar grautinn þess.

Hér kom líka fram að sumir eru sammála því að peningar hafi áhrif á skoðun fólks að einhverju leyti, með áróðri er hægt að breyta skoðunum fólks. Það þýðir að peningar, mikið fjármagn breytir skoðun þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og breytir þannig sannfæringu þingmanna, ekki satt? Þeir eru margir búnir að lýsa því yfir að þeir muni fara að vilja þjóðaratkvæðagreiðslunnar þannig að sannfæringin dinglar eftir peningunum sem settir eru inn í dæmið. Það er ótrúlegt að sannfæringin skuli vera sú því að ég les það út úr 48. gr. stjórnarskrárinnar að þetta sé þvert á hana, að þingmenn megi ekki fara að boðum kjósenda sinna.

Ég skora á hv. þingmenn sem hafa svarið eið að stjórnarskrá Íslands eins og hún er núna að lesa þessa grein og bera hana saman við sannfæringu sína.

Eins og ég gat um áðan voru það villandi forsendur sem urðu til þess að menn greiddu atkvæði með þessu. Þetta er ekki það sem menn ætluðu, menn ætluðu ekki að fara í aðildarferli, menn ætluðu að fara í samningaviðræður og fá eitthvað gott út úr þeim, að mega veiða fisk í svo og svo mörg ár og allt það.

Ekki hefur verið nefnt hérna, en það kom fram í útvarpinu um daginn hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að í gildi eru íslensk lög nr. 62 frá 1978 sem eru lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi. Það er nefnilega þannig að Evrópusambandið er búið að stofna eins konar sendiráð á Íslandi og það er ákveðin evrópsk stofnun sem starfar hér á landi. Samkvæmt fyrrnefndum lögum er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu. Þar sem nú er komin netnotkun og allt slíkt er spurning hvort þessi starfsemi Evrópusambandsins á Íslandi með þessum gífurlegu fjárstyrkjum brjóti ekki þessi lög, að hafa áhrif á Ísland. Ég vil gjarnan að menn skoði það í utanríkismálanefnd hvort slíkt brjóti lög sem banna fjárhagslegan stuðning erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka eða blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi, að það verði kannað í hv. utanríkismálanefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, hvort það geti verið að þessi fjáraustur Evrópusambandsins á Íslandi með ákveðinni stofnun sem starfar í landinu sé brot á íslenskum lögum.