139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg á hreinu að hv. þingmaður greiddi atkvæði með sannfæringu sinni, ég er alveg fullviss um það og það fer ekkert á milli mála. Hv. þingmaður vill ganga í Evrópusambandið, vill að Ísland gangi inn og verði hluti af Evrópusambandinu. Það var ekki það sem ég átti við. Ég átti við ummæli margra hæstv. ráðherra í þessum viðræðum þar sem þeir lýstu því yfir í atkvæðaskýringunni að þeir væru á móti Evrópusambandsaðild, enda hafa margir ráðherrar sem greiddu atkvæði með aðildarviðræðunum lýst yfir að Ísland hafi ekkert að gera inn í Evrópusambandið og það finnst mér öldungis óskiljanlegt. Það var það sem ég átti við.

Varðandi hitt málið, hvort það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um öll mál. Þau eru nú mismunandi mikilvæg málin. Ég efast um að nokkurt mál sé mikilvægara en þetta þar sem stendur til að afsala sér fullveldi Íslands. Ég lít alla vega svo á, ég sé ekki miklu stærri mál, ég sé þau ekki. Við tökum afstöðu til fjölmargra mála, um skatta o.s.frv., og þá lætur maður minni hagsmuni víkja fyrir meiri hagsmunum oft og tíðum, samþykkir eitthvað sem maður er kannski á móti vegna þess að eitthvað annað kemur í staðinn. En þetta mál er svo stórkostlegt. Við Íslendingar háðum sjálfstæðisbaráttu í mörg, mörg ár áður en við fengum fullveldi. Ísland var ein fátækasta þjóðin í Evrópu, ekki ein, hún var fátækasta þjóðin í Evrópu vegna þess að nýlenduveldið — það var svo sem ágætt — Danir voru í Danmörku og höfðu lítinn áhuga á Íslandi. Þannig óttast ég að verði með Ísland þegar það er gengið inn í Evrópusambandið. Ekki kannski eins hastarlegt en ákvörðunin, valdið til ákvarðana er langt frá okkur. Það þekkja þeir á Ísafirði að þeir þurfa að fara til Reykjavíkur til að ná í allt, allar ákvarðanir. Sama mun gerast með Ísland, það þarf að fara til Brussel til að fá allar ákvarðanir og þær verða númer 38 í bunkanum.