139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Nei, frú forseti, ég veit það ekki. En ég hef áður í umræðunni lagt til að styrkjum sem koma til Íslands verði dreift jafnt á milli þeirra sem eru á móti aðild og hinna sem eru með þannig að jafnræði sé á milli þessa fjárausturs. Það er nefnilega þannig, og þá svara ég kannski spurningunni sem til mín var beint, að áróður getur haft áhrif, það er þekkt. Það verður básúnað út hve óskaplega gott sé að lifa í Evrópusambandinu og hve allt sé yndislegt þar. Þetta verður að síbylju (RR: Hvað með hinn áróðurinn?) — hann hefur svo miklu minni peninga og það er einmitt það sem ég á við, það verður kannski eitt skilti á móti hundrað. Og ekki bara það heldur eru heimsóknir til Evrópusambandsins fjármagnaðar af því sjálfu og heimsóknir til sveitarstjórna og öllum sagt í trúnaði við borðið hve gott sé að vera í Evrópusambandinu.