139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður nú eiginlega að bera þessa spurningu upp við hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson. Mér er það hulin ráðgáta hvernig þessir tveir ágætu herramenn geta haldið því fram að ekki séu aðlögunarviðræður í gangi og lýst því yfir í þinginu og opinberlega, þegar höfundur ferlisins, sjálft Evrópusambandið, lýsir því yfir í öllum sínum gögnum að ferlið snúist fyrst og fremst um aðlögun og ekkert annað. Þetta kemur fram í útgefnum bæklingum frá Evrópusambandinu og má lesa af heimasíðu sambandsins. Ég á erfitt með að átta mig á hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra og hv. þingmaður tala með þessum hætti. Þess vegna lagði ég til að ef þeir eru virkilega þeirrar skoðunar að engin aðlögun sé í gangi, þá hafi þeir samband við viðsemjanda sinn og tilkynni að Ísland sé ekki þátttakandi í aðlögunarviðræðum sem Evrópusambandið telur víst að það sé þátttakandi í og þessi misskilningur verði leiðréttur.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í viðræðunum nú og í allri þeirri vinnu sem á sér stað í ráðuneytunum og að sumu leyti hér á þingi er gert ráð fyrir að íslenska ríkið verði klárt frá fyrsta degi til að virka sem aðili að Evrópusambandinu, verði samningur þar um samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig var þetta ekki fyrir 1995. Það veit hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Þá voru samningaviðræðurnar allt öðruvísi, eins og við Norðmenn, Austurríkismenn, Svía og Finna. Þetta breyttist allt þegar nýfrjálsu ríkin, gömlu kommúnistalöndin, óskuðu eftir aðild að Evrópusambandinu. Þá þurfti að breyta ferlinu vegna þess að þau lönd voru svo vanþróuð að þau pössuðu ekki inn í stofnanastrúktúr eða lagastrúktúr Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Þetta gerir það að verkum að ferlið er orðið að aðlögunarferli en er ekki lengur samningaviðræður í venjulegum skilningi.