139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að framganga ríkisstjórnarinnar í málinu skaði ekki bara ásýnd ríkisstjórnarinnar heldur ásýnd landsins. Það er auðvitað ekki boðlegt að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn tali með þessum hætti um mál sem þeir berjast fyrir og eru í samningaviðræðum vegna. Vandi ríkisstjórnarinnar er auðvitað sá að alla forustu skortir í Evrópumálinu. Það vita allir að ríkisstjórnin gengur ekki gegnheil fram í málinu. Það er það mikil andstaða við aðild Íslands að Evrópusambandinu innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Framganga ríkisstjórnarinnar í málinu, sérstaklega á alþjóðavettvangi, skaðar orðspor landsins og undirstrikar það sem margoft hefur komið fram og blasir í rauninni við öllum landsmönnum, að landið er stjórnlaust og engin verkstjórn er í gangi innan Stjórnarráðsins. Verkstjórnin sem var nú rómuð fyrir einhverju síðan og látið í veðri vaka að hæstv. forsætisráðherra, sem nú fer með verkstjórnarvaldið, væri sú eina sem gæti stýrt málum. Síðan hefur komið í ljós að svo er ekki.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hræðast að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, þingmenn sem hafa haldið innblásnar ræður um mikilvægi þess að fólkið fái að ráða og segja sinn hug. Þegar þeir eru sestir í ráðuneytin og tillögur koma um að blása til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál eins og Evrópusambandið, finna þeir því allt til foráttu. Það sýnir að (Forseti hringir.) í þessu máli eru þingmenn stjórnarflokkanna farnir að tala þvert gegn eigin sannfæringu, (Forseti hringir.) a.m.k. eins og hún var hér áður fyrr.