139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningu til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Er það rétt skilið hjá mér að þingsályktunartillagan sem hér var flutt geti ekki gengið fram nema þessi breyting á lögunum gangi eftir? Er það ekki rétt skilið hjá mér? Ég vildi gjarnan fá það fram hjá hv. þingmanni.

Síðan er annað sem ég vil gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns á. Það er hvort þingmaðurinn hafi ekki áhyggjur af því að ef mikið verður um að verið sé að spyrða saman þjóðaratkvæðagreiðslum og almennum kosningum eða spyrða saman kosningum sem eru kannski af algjörlega ólíkum toga, um ólík málefni, annars vegar verið að kjósa fólk og hins vegar verið að kjósa um eitthvert heitt málefni sem jafnvel getur verið pólitískt, að það þynni ekki út fyrri kosningar. Einn mesti pirringur minn í gegnum tíðina hefur verið að ég hef aldrei upplifað að kjósa um stjórnarskrá lýðveldisins. Það hefur alltaf verið spyrt saman við aðrar þingkosningar. Ætlað samþykki mitt hefur ætíð verið tekið. Mér finnst þetta vont.

Ég vil fá að kjósa sérstaklega um mikilvæg málefni. Ég er ekkert hrifinn af því að verið sé að bæta því við aðrar kosningar til að mynda eins og Icesave-kosninguna, svo við tökum dæmi. (Gripið fram í.) Ég er ekki viss um að það hefði verið skynsamlegt að spyrða þeim saman við sveitarstjórnarkosningar.