139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja á stjórnarskránni þá ætla ég að upplýsa þingmanninn um að það er ekki hægt að breyta stjórnarskránni nema að kjósa um það samhliða alþingiskosningum, þannig að sá misskilningur er frá.

Þingmaðurinn spyr hvort þingsályktunartillagan sem var til umræðu áðan geti ekki gengið fram nema tillagan um breytingar á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslum nái fram að ganga. Ég vil segja við þingmanninn að það er komin fram breytingartillaga við tillöguna, að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli fara fram í síðasta lagi 28. maí 2011 þannig að svigrúmið er gott. Þetta eru um sex mánuðir þannig að frumvarpið sem liggur fyrir þinginu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og breytingar á þeim er ekki samspyrt málum sem rædd voru áðan. Þetta er sjálfstætt mál. Þetta er sjálfstætt frumvarp. Þetta er frumvarp sem er lagt fram vegna þess að rýmka þarf tímamörkin um þrjá mánuði sem getið er um í 3. gr.

Varðandi ótta þingmannsins að honum finnist óþægilegt og ósanngjarnt að spyrða saman kosningar eins og hann segir, vil ég benda á að í 3. mgr. 4. gr. um lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum þessum samhliða kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis eða forsetakjöri.“

Þarna stendur þetta í lögunum, meira að segja þó að forsetakjör sé persónukjör er lagt til í lögunum sem samþykkt voru í sumar að þjóðaratkvæðagreiðslur geti farið fram á sama tíma.

Auðvitað verðum við sem þjóð, sama hvort við erum í efnahagsþrengingum eða ekki, að hugsa um sparnað fyrir ríkissjóð. Það er ekki hægt að deila um það að sameina kosningar með þessum hætti hefur gríðarlegan sparnað í för með sér fyrir þjóðarbúið. Ég treysti kjósendum fyrst og fremst þó þeir þyrftu að kjósa um fimm atriði í sömu kosningunum, þá eru íslenskir kjósendur færir um það.