139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging og orkunýting í Þingeyjarsýslum.

102. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég tel rétt við upphaf umræðu um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir að spyrja þeirrar spurningar hvort landið sé tekið að rísa. Í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum átt á þinginu frá því að það kom saman í haust er fyllilega eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort það liggi fyrir að við séum að ná vopnum okkar í efnahagslegu tilliti. Því miður sýnist manni svo ekki vera þegar litið er yfir nýbirtar tölur Hagstofu Íslands, m.a. um breytingar á landsframleiðslunni sem að flestra mati eru taldar þokkalega góður mælikvarði á þróun efnahagsmála. Af þeim mælikvörðum sem þar eru er ljóst að samdráttarskeiðið sem við göngum nú í gegnum ætlar að verða töluvert lengra og dýpra en samstarfsáætlun okkar ágætu samstarfsaðila í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gerði ráð fyrir.

Hins vegar er mjög sláandi í umræðu um stöðuna eins og hún er að hvergi ber á því að fyrir liggi einhver samræmd stefna í atvinnumálum eða tillögur sem lúta að því með hvaða hætti stjórnvöld geti greitt fyrir því að atvinnulíf og atvinnumál landsmanna komist í betra horf en nú er. Þvert á móti virðist fyrirstaðan oft og tíðum vera með þeim hætti að maður kann að álykta sem svo að það sé ekki vilji eða ekki náist pólitísk samstaða um meginmál til að koma þeim til verka þegar þau koma fram.

Ég vil geta þess hér að eftir fjárlaganefndarfund í morgun þar sem farið var yfir framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði ársins þá liggur fyrir að samdráttur í tekjum ríkissjóðs fyrstu átta mánuðina er að verða til muna meiri en menn gerðu ráð fyrir. Útlit er fyrir að tekjuáætlun fjárlaga sé gengin mjög úr skorðum og það sem heldur henni uppi í því að vera nokkurn veginn innan þolanlegra marka í frávikum eru einskiptistekjur vegna sölu og samkomulags um Avens í Lúxemborg. Þetta er fyrirkvíðanlegt því að maður sér ekki með neinu móti fram á að tekjuáætlun ríkisins í fjárlögum fyrir árið 2010 hefði getað gengið eftir svona nokkurn veginn nálægt núlli nema fyrir þessa einskiptis sölu. Því er það dálítið umhugsunarvert hvers vegna menn leggja þá ekki meira upp úr því að skapa þann grunn að tekjur ríkissjóðs geti orðið meiri af vaxandi atvinnustarfsemi.

Í öðru samhengi er þetta líka dálítið fyrirkvíðanlegt þegar maður horfir á upplýsingar sem eru að koma fram varðandi atvinnuleysi. Það er upplýst nú að vegið atvinnuleysi sé um 7,5%. Ég vil nefna í því sambandi að tölur um atvinnuleysi ber að taka með ákveðnum fyrirvara því að inni í þeim tölum sem birtar eru og landsmenn velta sér upp úr dagsdaglega er ekki gert ráð fyrir og ekki taldir með þeir einstaklingar sem eru svo óheppnir að hafa lent í þeirri stöðu að vera atvinnulausir lengur en þrjú ár, sumir hafa horfið í hlé inn í skóla og njóta þá ekki bóta og eru ekki á atvinnuleysisskránni og aðrir hafa flutt úr landi.

Þetta eru þær stærðir og það viðfangsefni sem við er að glíma. Þess vegna fagna ég þeim áhuga sem sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir hlaut. Að henni standa auk þess sem hér mælir fyrir henni 25 þingmenn aðrir. Ég vænti þess að sá kraftur sem í þeim hópi er nægi og dugi til að koma þessu máli hratt og örugglega í gegnum Alþingi þannig að menn geti farið að horfa til þess að á þessu svæði sem lengi hefur unnið að þessu máli verði einhver vöxtur.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp og vitna til þess skjals sem hér liggur fyrir en það er þingsályktunartillagan sjálf. Hún snýr að atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar viðræður við Alcoa á Íslandi og kínverska álfyrirtækið Bosai Mineral Group (BMG) með það að markmiði að ljúka samningum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar við Húsavík á grundvelli viljayfirlýsingar stjórnvalda, Norðurþings, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar frá 22. október 2009. Markmiðið verði að skapa ný störf, verja störf og afla þjóðarbúinu mikilvægra gjaldeyristekna.“

Það vill svo til að farið er í þetta með þó nokkrum krafti í dag því að það liggur hér fyrir, ef ég hef skilið það rétt og er næsta mál á dagskrá, önnur þingsályktunartillaga sem lýtur að atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum. Mér skilst að hún sé nákvæmlega eins orðuð en menn vilji fara hægar í sakirnar í þeirri tillögu, eins og raunar Samfylkingin hefur viljað gera síðustu tvö ár eða allt frá því að hún hóf samstarf í ríkisstjórn og fór með forræði þessara mála. Batnandi mönnum er best að lifa. En ég fagna því sérstaklega að sjá félaga mína úr þingflokki Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, þá Sigmund Erni Rúnarsson og Kristján Möller, ljá máls á því og koma inn í þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir ásamt þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þannig háttar til að í október 2009, eftir mikið japl, jaml og fuður þegar ríkisvaldið neitaði í rauninni að framlengja viljayfirlýsingu um samstarf við Alcoa og sveitarfélögin um framhald þess máls sem þá hafði verið hafið tveimur árum fyrr, varð það niðurstaðan að sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur og iðnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands mundu undirrita viljayfirlýsingu. Í henni kemur fram að þessir aðilar séu sammála um mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Aðilar eru einnig sammála um mikilvægi þess að velja traustan, ábyrgan og fjárhagslega sterkan aðila til samstarfs um atvinnuuppbyggingu sem byggir á hagnýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum. Stefnt sé að því að sú orka sem er að finna á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum verði nýtt til að skapa að lágmarki 450 bein varanleg störf í Þingeyjarsýslu.

Þessi viljayfirlýsing kom til eftir að, eins og ég gat um áðan, ríkisstjórnin hafnaði því að endurnýja samkomulagið eða samstarfsyfirlýsinguna við Alcoa um álver á Bakka. Í kjölfarið á þessari viljayfirlýsingu setti iðnaðarráðherra sérstaka verkefnisstjórn heimamanna og stjórnvalda á laggirnar til að skoða aðra möguleika, leita einhvers annars. Sú verkefnisstjórn hefur starfað á grunni þessarar viljayfirlýsingar og átt m.a. fjölmarga fundi og skilað af sér áfangaskýrslum sem hafa verið kynntar m.a. á opnum fundi á Húsavík.

Hvað kemur út úr þessu starfi? Verkefnisstjórnin er búin að skila iðnaðarráðherra nákvæmlega sömu niðurstöðu og hún skilaði af sér í vor og lá fyrir þá, að tvö verkefni séu áhugaverð og raunhæf, álver á vegum Alcoa og álver á vegum hins kínverska fyrirtækis sem ég nefndi hérna áðan, Bosai. Ósk ríkisstjórnarinnar frá því í maí á síðasta ári um að leitað yrði að einhverju öðru breytti akkúrat ekki neinu öðru en því að eyða tíma fólks í bið eftir einhverju sem menn ætluðu sér ekki að koma til vegar. Verkefnisstjórnin fjallaði aðeins um það, flokkaði þá kosti sem í boði voru í A-, B- og C-flokk og komust tvö verkefni í A-flokk sem áhugaverð og raunhæf. Annars vegar var það álver Alcoa og hins vegar álver á vegum Bosai. Fjögur verkefni fóru í svokallaðan B-flokk sem áhugaverð en þyrftu ítarlegri skoðun. Þau voru í áliðnaði, gagnaver, málmblendi, efna- og eldsneytisframleiðsla. Loks voru sex verkefni sett í C-flokk sem þyrfti að þroskast betur.

Ríkisstjórnin var hins vegar ekki tilbúin í vor út frá þessari niðurstöðu að velja annað hvort álfyrirtækið í A-flokknum heldur gaf fyrirmæli um það að leitað yrði betur að einhverju öðru og átti niðurstaðan nú að liggja fyrir fyrir 1. október. Hvað gerist þá? Verkefnisstjórnin hefur lokið vinnu sinni, skilað iðnaðarráðherra aftur niðurstöðu og sú staða er enn óbreytt; það séu aðeins tvö verkefni sem hafi farið í A-flokk sem séu áhugaverð og raunhæf. Hvað skyldi það vera? Það skyldi þó ekki vera álver Alcoa annars vegar og hins vegar kínverska álverið. Jú, það er niðurstaðan enn og aftur.

Af þessu tilefni langar mig að fagna sérstaklega orðum hæstv. iðnaðarráðherra sem féllu í fjölmiðlum þegar þetta lá fyrir. Hún sagði þá að samfélagið í Þingeyjarsýslum gæti farið að búa sig undir stóra atvinnuuppbyggingu. Áform um orkunýtingu séu komin á það stig að Landsvirkjun geti farið að gera viðskiptasamninga og segir ráðherra mjög erfitt að snúa af þeirri braut sem mörkuð hafi verið í þeim efnum. Ég sé ástæðu til að ítreka þakkir mínar til ráðherra fyrir þessi orð og treysti því að hún standi við þau með stuðningi þingmanna sinna.

Hins vegar vekur það manni ákveðinn ugg að eignarhaldið á Landsvirkjun er 100% í höndum ríkisvaldsins og forræði þess fyrirtækis er í höndum fjármálaráðherra. Hvernig skyldi svo Landsvirkjun bregðast við í þessu máli? Þar greinum við ákveðna stefnubreytingar hjá eigandanum sem er ríkið. Þegar farið er í gegnum gögnin um hvernig Landsvirkjun hefur spilað í þessu máli fyrir norðan er mjög sérkennilegt að lesa það og fylgjast með hvernig það er svo ekki sé meira sagt.

Í upphafi sagði Landsvirkjun við NAUST að ekki væri grundvöllur að svo stöddu að ræða við fyrirtæki í flokki A þar sem ekki væri hægt að staðfesta orku fyrir 180 þús. tonna álver. Ástæðan væri sú að rannsaka þyrfti svæðin betur. Þetta er nokkuð merkileg staðhæfing, sérstaklega þegar haft er í huga að frá árinu 2006 hefur alla tíð verið rætt um mikilvægi þess að rannsaka til að staðfesta orkumagn. Umtalsverðar rannsóknir hafa farið fram. Skipulagsstofnun til að mynda telur að gerð hafi verið góð grein fyrir um 440 megavöttum í Þingeyjarsýslum. Í janúar fundaði forstjóri Landsvirkjunar með sveitarfélögunum. Á þeim fundi kom fram að ekki væri talin þörf á frekari rannsóknum að svo stöddu og í raun væri hægt að ganga til samninga með ákveðnum takmörkunum. Í júní hins vegar, fimm mánuðum síðar, heldur Landsvirkjun, 100% í eigu ríkisvaldsins, því fram að ekki sé hægt að ganga til samninga við aðila í svokölluðum A-flokki, þ.e. álverin, þar sem orkumagn sé ekki tryggt og frekari rannsókna sé þörf. Niðurstaða heimamanna og fulltrúa í NAUST-nefndinni er sú að mönnum þyki þetta mjög einkennilegar sviptingar svo ekki sé meira sagt í afstöðu Landsvirkjunar til þess með hvaða hætti hægt er að afla atvinnustarfseminni orku á þessu svæði.

Þannig hefur þetta gengið í stað þess að ríkisstjórnin, handhafi hlutabréfsins í Landsvirkjun, gefi það einfaldlega út að ekki eigi undir neinum kringumstæðum að reisa þarna álver. Það er miklu heiðarlegra að segja það strax og gefa það út að svo verði ekki en að draga Þingeyinga ásamt Norðlendingum öllum á þessu eins og hefur verið gert. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnvöld hafa tafið hluti með þessum hætti.

Ég minni í því sambandi á sameiginlega umhverfismatið þegar þáverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, skaut þetta verkefni gjörsamlega á kaf og út af borði. Þegar sú ákvörðun var tekin af þáverandi umhverfisráðherra var heimamönnum sagt að þetta mundi tefja verkið um eina viku. (Gripið fram í: Einn dag.) Eina viku — ég ætla að leyfa ríkisvaldinu eða þessu stjórnvaldi að njóta sannmælis. (Gripið fram í.) Þetta mundi tefja í mesta lagi um eina viku. Hver er raunin? Tvö ár eru liðin síðan og sveitarfélagið, sem er ekki mjög fjárhagslega burðugt, er búið að eyða í þetta yfir 100 millj. kr. Hvers lags framkoma er þetta eiginlega? Ábyrgð ríkisvaldsins í þessum efnum er mjög mikil því að svörin liggja þeim megin borðs. Ekki bætir úr skák hugsunin sem birst hefur síðan í áformum stjórnvalda gagnvart þessu svæði og fullnumast í því makalausa fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Ég hef áður bent á mikilvægi þessa verkefnis fyrir Norðausturland allt og þjóðarbúið raunar einnig. Í ljósi þess ástands sem uppi er nú um stundir í íslenskum efnahag ætti öllum að vera ljóst hversu rakið verkefni þetta er til að vera okkur hvati inn í framtíðina.

Ég vil nefna það hér að án hagvaxtar er vafasamt að auka þjónustu ríkisins við almenning eða viðhalda því sem við höfum nú. Verkefni þetta er því brýnt og til hagsbóta fyrir allt þjóðarbúið.

Að lokinni umræðu um þessa þingsályktunartillögu sem ég mæli hér fyrir fyrir hönd þeirra þingmanna sem undir hana rita legg ég til að henni verði vísað til hv. iðnaðarnefndar og vænti þess að þar verði um skjóta, örugga, faglega og góða afgreiðslu að ræða.