139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging og orkunýting í Þingeyjarsýslum.

102. mál
[18:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Tilkoma þessarar þingsályktunartillögu er svolítið sérstök vegna þess að á borgarafundi sem haldinn var á Húsavík fyrir ekki svo löngu var tillagan lögð fram og skorað á þingmenn Norðausturkjördæmis að leggja hana fram. Sá sem kom með tillöguna bað þann sem fyrstur rétti upp hönd að bera tillöguna upp. Það var hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Það var ágætt. Hann hefur lagt fram tillöguna. Ég er meðflutningsmaður á henni ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en ég sakna þess að sjá ekki fleiri þingmenn úr öðrum flokkum en raun ber vitni.

Heimamenn hafa barist fyrir því að hægt verði að nýta orkuna í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Þeir hafa farið í gegnum langt og mikið ferli, reynt að vanda sig á allan mögulegan hátt, tryggt orkuna og stigið hægfara en örugg skref í þeirri von að verkefnið verði að veruleika. Því miður hefur ríkisvaldið ítrekað lagt stein í götu þeirra. Oft og tíðum hefur maður spurt sig hvað þetta ágæta fólk hafi gert til að verðskulda slíka meðferð. Það er ágætt að umræðan fór fram í kjölfar þess niðurskurðar sem er boðaður í Þingeyjarsýslum. HÞ, eða Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, þarf að sæta um 40% niðurskurði, einhverri mestu niðurskurðartillögu sem lögð hefur verið fram í heilbrigðismálum á landsvísu.

Heimamenn hafa unnið að þessu máli, eins og ég sagði áðan, af mikilli samviskusemi. Við verðum að hafa í huga að atvinnuleysi mælist þar gríðarlega hátt. Jafnvel þó að það mælist ekki eins hátt og á öðrum landshlutum, eins og á Suðurnesjum verður að taka inn í myndina að fólksflutningar af svæðinu hafa verið gríðarlegir á undanförnum árum. Þegar við leggjum það að jöfnu má í rauninni segja að atvinnuleysi mælist jafnmikið og á Suðurnesjum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg og ítarleg orð um þessa þingsályktunartillögu, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði það með miklum ágætum áðan. Ég vil hins vegar benda á að um er að ræða um 240 þús. tonna álver. Því hefur iðulega verið haldið fram í umræðunni að Alcoa ætli að reisa um 350 þús. tonna álver. Snúið hefur verið snúið út úr umræðunni og sagt að erfitt sé að finna orku fyrir slíkt álver en Alcoa hefur í rauninni ekki sagt annað en að auðvitað náist ávallt meiri hagkvæmni úr stærra álveri, það liggur í augum uppi, en annað hefur ekki verið lagt til og ekki verið sagt en að um sé að ræða 240 þús. tonna álver.

Þetta verkefni skiptir ekki bara máli fyrir Þingeyjarsýslur. Það skiptir líka máli fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland allt. Við erum að tala um 450–500 störf í Norðurþingi, um 200 á Eyjafjarðarsvæðinu og 900–1.050 afleidd störf á landsvísu.

Ég vona að málið sofni ekki í nefnd. Ég vona að það fari í gegnum iðnaðarnefnd og bið þingmenn stjórnarmeirihlutans, sem styðja þingsályktunartillöguna, að beita sér fyrir því. Ég held að íbúar Þingeyjarsýslna eigi skilið að hún verði rædd hér og leidd til atkvæðagreiðslu þannig að við getum á næstu missirum séð mikla atvinnuuppbyggingu þar á bæ.