139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging og orkunýting í Þingeyjarsýslum.

120. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar Logi Már Einarsson, Ólína Þorvarðardóttir og Skúli Helgason.

Hér í síðasta dagskrárlið vorum við að ræða tillögu með sama heiti sem var talsvert afmarkaðri en sú sem hér er til umræðu. Þar er krafist skilyrðislausra samninga við tiltekin fyrirtæki. Hér ræðum við markvissa nýtingu jarðvarmans á svæðinu til atvinnuuppbyggingar þar án þess að sérstök fyrirtæki séu nefnd til sögunnar. Því verður þó að halda til haga að ákveðin fyrirtæki hafa ákveðið forskot vegna þess hversu lengi þau hafa verið með í umræðunni um nýtingu orkunnar á þessum slóðum.

Nú er staðan sú að Landsvirkjun horfir einkum til þessa svæðis varðandi byggingu nýrra virkjana. Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. vinna nú að því að markaðssetja orkuna á svæðinu. Ýmsir aðilar hafa sýnt áhuga á að nýta hana til fjölbreyttrar iðnaðarstarfsemi svo ekki ætti að vera flókið að ljúka því mikilvæga verkefni sem allra fyrst allri þjóðinni og efnahagslífinu til heilla.

Það eru liðnir nokkrir áratugir frá því að byrjað var að skoða möguleika á að nýta orkuna sem þarna kraumar í iðrum jarðar. Upp úr 1980 var talað um að nýta orkuna til pappírsframleiðslu og margar góðar hugmyndir hafa fylgt í kjölfarið. Frá árinu 2002 hefur Alcoa verið að skoða möguleika á álframleiðslu á staðnum. Í heimsókn iðnaðarnefndar til Landsvirkjunar nú í haust voru þessi mál mjög til umræðu. Þar kom fram að á umræddu svæði eru nú þegar tilbúin til virkjunar 100 megavött í prófuðum tilraunaholum sem strax má virkja. Á svæðinu virðast vera 330–550 megavött og þar af 400 megavött virkjanleg. Orkunýtingu á háhitasvæðum verður að byggja upp í þrepum til að fylgjast megi með því hvaða áhrif hver nývirkjuð hola hefur á þær sem fyrir eru.

Núna treystir Landsvirkjun sér til að afhenda orku í 125 þús. tonna álver, er ekki að svo stöddu tilbúin til að skuldbinda sig til að afhenda orku til 180 þús. tonna álvers en er tilbúin til að deila þeirri skuldbindingu með orkukaupanda ef um semst. Þeir telja algjörlega óframkvæmanlegt að fara í skuldbindandi samninga um 450 megavött sem þarf til að uppfylla orkuþörf 360 þús. tonna álvers sem yrði sú hagkvæma eining sem álframleiðendur vilja helst byggja. Landsvirkjun telur ekki hægt að sýna fram á meira en 400 megavatta orku á svæðinu og til þess að ná þeirri orku þurfi átta til tíu ára varfærna uppbyggingu. Það er því alls ekki verið að tala niður 360 þús. tonna álver, það er einfaldlega ekki gerlegt að fara í slíkt að svo stöddu. Áfangaskipt framkvæmd er auðvitað möguleg í eðlilegu samhengi við raunverulega orku á staðnum.

Mér er mjög umhugað um að af stað fari öflug, mannaflafrek atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum, ekki veitir af. Þarna hefur fólk þreytt þorrann og góuna um árabil og því miður hafa heimamenn þurft að horfa á eftir góðu fólki sem misst hefur bæði vinnu og þolinmæði við að bíða eftir nýjum atvinnutækifærum sem unnið hefur verið að áratugum saman.

Það sem öllu skiptir í þessu máli er að unnið sé á lausnamiðaðan hátt að raunhæfum verkefnum og það veit ég að verkefnisstjórnin er að gera. Ríkisstjórnin þarf líka að vinna sína heimavinnu, t.d. með því að koma fram með ívilnanapakka sem byggist á nýsamþykktum lögum um slíkt til að vinna að því að selja svæðið sem ákjósanlegan fjárfestingarvalkost. Þá þarf ríkisvaldið að koma að því að vinna með heimamönnum að því að greina innviði samfélagsins og vinna að áætlunum um innri vöxt og stöðu stoðstofnana á svæðinu. Það er því eðlilegt að tala um það í þessu samhengi að það er mikil skammsýni að skerða verulega starfsemi heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á þessum tímapunkti því að þegar fram undan eru stórar framkvæmdir og síðan stór fyrirtæki á svæðinu verða stoðstofnanir eins og heilbrigðisþjónusta að vera í lagi og uppsagnir fagfólks nú geta valdið því að það flyst í burtu og erfitt verður að endurheimta það. Það vill nefnilega þannig til að það virðist auðveldara að flytja til Reykjavíkur en að flytja þaðan.

Framhaldsskóli, atvinnuþróunarfélag og fleiri slíkar stofnanir eru afar mikilvægar stoðstofnanir fyrir dreifðar byggðir en um grundvallarstofnanir samfélagsins þarf að standa stífan vörð, ekki síst þegar þær lýsa sig algjörlega tilbúnar til að vinna með stjórnvöldum að eðlilegum sparnaði og hagræðingaraðgerðum.

Þó að atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum sé örlítið undir landsmeðaltali, eða milli 7 og 8%, verður að taka tillit til þess að þar hefur verið viðvarandi fólksfækkun, þar hefur fólki fækkað um 10% síðasta áratuginn. Það er mikil blóðtaka fyrir byggðarlag af þessari stærðargráðu. Staðreyndir sem þessar verða að vera með þegar rætt er um atvinnuleysi svæða. Hefur fólki fjölgað eða fækkað á svæðinu, eru sérlega veik svæði? Þannig getum við skoðað heilbrigði svæðanna á heildstæðan hátt.

Það er ljóst að huga þarf sérstaklega að styrkingu byggðanna í Þingeyjarsýslum, ekki síst með þá staðreynd í huga að þarna eru miklar auðlindir fólgnar í jörðu sem nýta má fólkinu til heilla. Sveitarfélögin á svæðinu hafa lagt mikla fjármuni í rannsóknir og aðra forvinnu. Það er kominn tími til að þau fari að fá arð af fjárfestingu sinni. Ef allir aðilar taka höndum saman um að leysa hnúta frekar en að herða þá enn frekar mun okkur takast að koma atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum í réttan farveg sem er fyrst og fremst áfram. Raunhæf nýting orkunnar, varðstaða um stoðstofnanir og jákvæð markaðssetning er það sem þarf. Förum þangað.

Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til hv. iðnaðarnefndar, vonandi til jákvæðrar afgreiðslu.