139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

afskráning Össurar hf. í Kauphöll Íslands.

[14:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið gegn auknum útflutningi og er fráleitt að halda slíku fram. Ljóst er að útflutningsgreinarnar hafa verið grunnforsenda fyrir efnahagsbatanum á undanförnum missirum og er mjög áhugavert að sjá að greinar sem íslenska krónan skemmdi samkeppnisstöðu fyrir eins og hugverkagreinarnar, hafa vaxið og dafnað í landinu á undanförnum missirum. Eitt verða hins vegar alvörustjórnmálamenn eins og hv. þingmaður að fara að gera, þeir verða að segja mönnum hvaða valkosti þeir sjá við gjaldeyrishöft ef þeir vilja ekki aðild að Evrópusambandinu og alvörugjaldmiðil. Sér hv. þingmaður í alvöru það ástand fyrir sér aftur þar sem íslensk heimili taka erlend lán og setja sig í þá áhættu sem þau hafa gert á undanförnum árum? Sér hann í alvöru fyrir sér umgjörð þar sem verð íslensku krónunnar sveiflast í ljósi eftirspurnar á alþjóðlegum mörkuðum og fyrirtæki og almenningur eru ofurseld stundarhagsmunum spákaupmanna? (Gripið fram í.) Ég held að ekkert okkar sjái það fyrir sér aftur. (Gripið fram í.) Ég held að ekkert okkar sjái fyrir sér aftur það fyrirkomulag (Forseti hringir.) að við höfum íslenska banka sem safna upp stórum innstæðum í útlöndum. Ég held þvert á móti að menn þurfi að þora að koma með alvörulausnir ef þeir vilja ekki (Forseti hringir.) íslenska krónu í höftum og ekki aðild að Evrópusambandinu.