139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Á mínu borði liggur ábyrgðin á því að leggja heildarmat á stöðu skuldugra heimila. Í tíð forvera míns var frumvarp lagt fyrir Alþingi um rannsókn á skuldastöðu heimila og fyrirtækja sem varð ekki að lögum hér í vor og nú hef ég lagt fyrir Alþingi nýja útgáfu af því frumvarpi, sem verður vonandi hægt að mæla fyrir á næstu dögum. Þar er reynt að gera okkur kleift með einföldum hætti að leggja heildstætt mat á alla þætti sem lúta að fjárhagsstöðu heimila, meta saman, sjá þróunina og að við getum fylgst með þessum upplýsingum næstu þrjú árin í gegnum þá dýfu sem við erum að ganga í gegnum.

Hv. þingmaður gleymdi einni tölu þegar hann fór yfir tölurnar hér áðan, og voru að mestu leyti réttar, og það er sú staðreynd að heildarfjöldi heimila í landinu er rúmlega 100 þús. Það eru 73 þús. heimili sem skulda en það eru fleiri heimili í landinu en þau sem skulda. Það eru fjöldamörg heimili til viðbótar sem skulda ekki þannig að heildarmyndin í þessu efni er flókin.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að fá sem gleggsta mynd af öllum þáttum í skuldamálum heimilanna en sú afmörkun sem ráðist var í af hálfu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar var bundin við íbúðalán, enda full ástæða til þar sem umræðan sem hefur verið í gangi hefur horft mjög mikið á íbúðalánaskuldir enda eru þær öðruvísi en allar aðrar skuldir. Það eru þegar úrræði fyrir fólk sem á erfitt með að ná utan um neysluskuldir sínar, en íbúðalánaskuldir eru eðli málsins samkvæmt nokkuð öðruvísi (Forseti hringir.) enda húsnæðisöryggi fólks í húfi.