139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

birting reglna um gjaldeyrishöft.

[14:30]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og alkunna er búum við Íslendingar við gjaldeyrishöft. Um helgina var viðtal við hæstaréttarlögmann hér í bæ, Reimar Pétursson, sem benti á að þær gjaldeyrisreglur sem samdar voru hefðu ekki verið birtar í samræmi við lög, hvorki reglurnar né samþykki né staðfesting ráðherra á þeim. Af því leiddi að gjaldeyrisreglunum yrði ekki beitt, þar á meðal refsiákvæðum reglnanna, gagnvart þeim sem grunaðir eru um brot á gjaldeyrisreglunum eða fyrir að hafa farið á svig við gjaldeyrishöftin. Þar með sé málarekstur á hendur þeim tilhæfulaus þar sem reglurnar hafi ekki haft gildi gagnvart borgurum þessa lands fyrr en þær voru birtar nú í október en menn hafa verið að reyna að framfylgja þeim í allt sumar.

Eins og hæstv. ráðherra veit heimilar stjórnskipun okkar ekki að reglum sem ekki hafa verið birtar sé beitt gagnvart borgurunum og alls ekki sé um refsiákvæði að ræða. Þessi alvarlegu mistök kunna, eins og áður segir, að leiða til þess að hugsanlegar málshöfðanir á hendur þeim sem taldir eru hafa brotið gegn gjaldeyrishöftunum og gjaldeyrisreglunum séu ónýtar. Þá vakna auðvitað upp spurningar um hver beri ábyrgð á því að þessar reglur séu birtar með réttum og löglegum hætti. Er það efnahags- og viðskiptaráðuneytið eða er það Seðlabankinn? Og sé lýsing hæstaréttarlögmannsins rétt hlýtur maður að spyrja með hvaða hætti hæstv. ráðherra sér fyrir sér að þeir sem bera ábyrgð á þessum mistökum (Forseti hringir.) verði látnir axla þá ábyrgð. Það er auðvitað alvarlegt mál ef reglur hafa ekki verið birtar og sú handvömm leiði til þess að allur málarekstur og rannsóknir á þessum alvarlegu málum eru ónýt.