139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

birting reglna um gjaldeyrishöft.

[14:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég vona innilega að ráðuneytið og hæstv. ráðherra séu á þurru landi með þetta mál og þá sérstaklega Seðlabankinn sem hæstv. ráðherra upplýsti að bæri ábyrgð á birtingu þessara reglna. Það vill hins vegar þannig til að þessi tiltekni hæstaréttarlögmaður hefur skrifað heila fræðigrein um birtingu slíkra reglna og leiðir þar í ljós í grein sinni í Lögmannablaðinu sem kemur út núna í desember að alls ekki hafi verið staðið rétt að birtingu reglnanna fyrr en seint og um síðir sem leiðir til þess samkvæmt okkar stjórnskipun að þeim verði ekki beitt á því tímabili sem þær áttu að gilda. Ég vonast til að efnahags- og viðskiptaráðuneytið og hæstv. ráðherra fylgist með því hvort lögmaðurinn hefur rétt fyrir sér vegna þess að það er náttúrlega gríðarlega alvarlegt mál hafi rangt verið að birtingu reglnanna staðið. Hafi það verið gert (Forseti hringir.) gilda þær ekki fyrir borgara þessa lands eins og við hæstv. ráðherra vitum.